Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:37:21 (3761)

2004-02-03 14:37:21# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þennan góða anda sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur með inn varðandi þessa áætlun. Þetta er sá andi sem ég hef fundið bæði frá stjórn og stjórnarandstæðingum og frjálsum félagasamtökum. Mönnum þykir þessi náttúruverndaráætlun vera rétt skref.

Varðandi vinnuna sem lýtur að svæðum norðan Vatnajökuls þá er henni haldið til haga í þeirri náttúruverndaráætlun sem við erum að fjalla um. Þar er haldið til haga þessum 14 nýju svæðum, líka vinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og svæðum tengdum honum, þ.e. svæðum sem hv. þm. og fleiri aðilar hafa verið að skoða síðustu missirin. Þessi vinna er því nú þegar inni í náttúruverndaráætluninni, þeirri stefnumótun sem við erum að fjalla um. Hana vantar því ekki inn í plaggið.

Ef hv. þm. á hins vegar við að niðurstaða nefndarinnar, verði hún nægilega skýr og fellur inn í áætlunina, geti komið þar inn sem texti þá á ég erfitt með að sjá fyrir mér að það geti gengið upp. Eins og hv. þm. hefur bent á, og ég deili þeirri sýn með honum, þá á ég von á að um ákveðin svæði þurfi sérlög, líklega um Vatnajökulsþjóðgarð og svæðin norðan Vatnajökulsþjóðgarðs, sem sagt stækkaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Það er miklu meiri vinna en svo að okkur takist að ljúka henni á þessu vorþingi.

Ég tel að það sé það mikil vinna í þessari náttúruverndaráætlun að ekki væri æskilegt að bæta við í hana lagasmíð. Ég held að málið sé ekki nógu þroskað til þess. Ég held því að það verði að bíða til næsta haustþings eða síðar, því miður.