Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:44:07 (3765)

2004-02-03 14:44:07# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í náttúruverndarlögunum kemur skýrt fram að Umhverfisstofnun fari með undirbúning að verndun og friðlýsingu svæða. Þegar þreifingar um að vernda svæði eiga sér stað á milli aðila hafa menn hins vegar samráð við sem flesta aðila og auðvitað þá sem eru skilgreindir hagsmunaaðilar.

Náttúrustofurnar búa yfir talsverðri þekkingu, mjög mikilli á mörgum sviðum, þannig að mér finnst blasa við að við þær verði haft samráð, þ.e. við náttúrustofur á viðkomandi landsvæðum þegar fjallað er um verndun svæðanna.

Fjölmargir aðilar koma að þessu samráði. Það eru landeigendur og sveitarfélögin. Það geta verið veiðiréttarfélög, umhverfisverndarsamtök, náttúrustofur og sjálfsagt fleiri aðilar sem ég gleymi að telja upp hér. Að mínu mati er aðalatriðið, þegar farið er í að vernda svæði, að umræða fari fram um af hverju eigi að vernda svæðið og hvaða ógnir steðja að því. Hvernig mætum við þeim og setjum upp skynsamar reglur á tilteknu svæði þannig að sem víðtækust sátt náist um þær reglur?

Að mínu mati er mjög slæmt þegar togast er á um reglurnar á svæðunum. Hv. þm. þekkir það t.d. ágætlega varðandi ref og mink í Hornstrandafriðlandi. Það er óþægilegt hve mikið menn hafa deilt um það. Reyndar er það ákvæði sérstaklega í skoðun í nefnd. Ég hef því lagt mjög mikla áherslu á samráð og þar koma náttúrustofurnar að mínu mati að sem samráðsaðili.