Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:48:32 (3768)

2004-02-03 14:48:32# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Það er afar mikilvægt að náttúrustofurnar fái hlutverk og ég endurtek það, fái hlutverk en ekki bara samráð, varðandi þessa miklu áætlun sem hér er á borðum okkar þingmanna.

Ég hef auðvitað heyrt mismunandi skoðanir, sérstaklega sveitarstjórnarmanna, varðandi náttúruverndaráætlunina. Í mjög mörgum tilfellum hefur hún hlotið góð viðbrögð en í vissum tilfellum eru líka nokkrar áhyggjur af því hvað hér muni vera á ferðinni. Ég vil taka sem dæmi Öxarfjörð sem fer undir verndun vegna fugla og er skilgreind hér sem fuglasvæði, búsvæði fugla. Þetta er afar stórt svæði sem skilgreint er, bæði Vestursandur og Austursandur allt frá Lóni austur að Sandá. Mikilvægi svæðisins er til þess að vernda sérstaklega flórgoða. Flórgoðinn er staðsettur á Víkingavatni þar sem talið er vera stærsta flórgoðavarp landsins utan Mývatns.

Þetta er auðvitað ákaflega mikilsvert en í Öxarfirði er einnig háhitasvæði sem sveitarstjórnarmenn hafa haft mikil áform um að nýta sem og heimamenn. Þess vegna eru auðvitað uppi spurningar, bæði í Kelduhverfi og Öxarfirði, um möguleika á því, þegar búið verður að friðlýsa allan Vestursandinn og Austursandinn, að nýta þetta háhitasvæði nema með einhverjum óskaplega miklum látum og tilfæringum.