Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:50:43 (3769)

2004-02-03 14:50:43# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn lýsir líka því viðhorfi að menn halda að hér sé um að ræða einhver flennistór svæði sem ekkert má gera á í framtíðinni. Það er ekki þannig. Við erum hér með stefnumótun í umfjöllun. Það er ekki búið að negla niður mörk svæðanna. Það eru einungis tillögur til að styðjast við eitthvað. Það er bara 5 km radíus í kringum Geysi, bara hringur. Það þarf að skoða miklu nákvæmara hvaða mörk eru eðlileg og það sama á við um Öxarfjörðinn. Það er ekki þar með sagt að á þessum svæðum sem hafa verið tekin svona út til að setja í forgang varðandi umræðurnar næstu fimm árin megi ekkert gera. Allt samráð á eftir að fara fram. Ég á ekki von á því að það komi til árekstra í Öxarfirði varðandi flórgoðann og hugmyndir manna um nýtingu á því svæði. Menn þurfa að setjast niður með sveitarfélaginu, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum og ræða sig í gegnum það. Jú, við ætlum að vernda flórgoðann, ákveðið svæði hans. Hvernig ætlum við að ná því fram? Getum við hnikað einhverju til ef menn ætla sér að gera eitthvað nákvæmlega á þessu svæði sem gæti ógnað honum? Og hvernig náum við því þá fram?

Ég vara svolítið við því að menn nálgist þessa vinnu með þeim hætti að það eigi að banna mönnum að hreyfa sig um þessi svæði. Það er ekki aðkoman. Þetta heitir í lögunum ,,friðlýsing``, e.t.v. því miður, og það orð hefur valdið mér miklu hugarangri af því að fólk upplifir við friðlýsingu, eitthvað sem er friðað, að það megi ekki gera neitt. Þess vegna hef ég kosið að nota orðið ,,verndun`` miklu frekar. Það lýsir miklu frekar því sem við erum að ná fram með þessari vinnu.