Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:54:10 (3771)

2004-02-03 14:54:10# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Með þessari fyrstu náttúruverndaráætlun er verið að lögfesta ákvæði um náttúruvernd og ég fagna því mjög eins og aðrir sem það hafa nefnt að við stígum þetta skref. Við í Samf. munum fara í þessa vinnu með mjög jákvæðum hætti í þingnefndinni og vonandi tekst að ljúka áætluninni í vor. En ég ætla líka að lýsa því yfir að mér finnst afar mikilvægt að það verði sátt um svona mál, að það sé hægt að vinna það þannig að allir séu sáttir þegar það fer út úr nefndinni aftur. Það er hins vegar full ástæða til að vera gagnrýninn og skoða hvað betur megi fara þannig að ég er ekki að lýsa yfir stuðningi við öll atriði í þessari áætlun, fyrst og fremst með hvaða hætti við eigum að fara í þessa vinnu.

Til dæmis þarf að kanna hvort samstaða geti orðið um það í nefndinni að gera breytingar, e.t.v. bæta við svæðum ef við teljum það mikilvægt þegar við erum búin að skoða málið.

Náttúruverndaráætlunin byggist fyrst og fremst á Bernarsamningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífssvæða í Evrópu sem er samningur 45 Evrópuríkja, sem og samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem er frá 1992. Evrópusambandið byggir sína stefnu á Bernarsamningnum og ef við værum í Evrópusambandinu væri þessi áætlun öðruvísi. Þá væri allt útfært í löggjöf meðan útfærsla þessarar áætlunar verður í reglugerð og í raun og veru erum við að hefja vinnu sem á eftir að taka mörg ár miðað við það. Og það finnst mér vera ókostur þegar ég lít til mikilvægis málsins.

Þessir mikilvægu alþjóðasamningar leggja áherslu á skráningu, vernd og uppbyggingu náttúrulegra vistkerfa, tegunda og búsvæða og hverju aðildarríki ber að koma á fót neti verndarsvæða sem til samans tryggja lágmarksvernd líffræðilegrar fjölbreytni þess ríkis. Traustar upplýsingar um náttúruvernd og náttúruminjar eiga að liggja til grundvallar hverju svæði og netið á að vera skipulega byggt upp. Það kemur fram í greinargerð þessarar tillögu að breytt hugmyndafræði hefur gefið af sér nýjar vinnuaðferðir við svona svæðisbundna náttúruvernd. Þær byggja á því og byrja á að skilgreina og skrásetja náttúruminjar sem þarfnast verndar og síðan tryggja tiltekna lágmarksvernd og netið með friðlýstum svæðum.

Þrjár stoðir eru lagðar til grundvallar. Í fyrsta lagi eru tegundir lífvera og þau svæði sem við erum að fjalla um hér byggja fyrst og fremst á þeirri stoð. Í öðru lagi vistgerðirnar og ekkert svæðanna tekur mið af þeirri stoð, og í þriðja lagi jarðminjar og það eru tvö svæði tekin inn samkvæmt þeirri stoð, Reykjanes og Geysir. Það hefur auðvitað heilmikið samt verið unnið með vistgerðirnar en það er ljóst að það er mjög mikil vinna fram undan varðandi þær.

Ég minni enn og aftur á mikilvægi grunnkortanna sem alloft hefur verið vísað til í umræðu um þessi mál og að lögð verði áhersla á gerð þeirra. Það hefur komið aftur og aftur fram alls staðar þar sem er verið að fjalla um náttúruvernd og framtíðina.

Í þessari tillögu er farið inn á fjögur svæði eins og hæstv. umhvrh. fór ágætlega yfir, sjö fuglasvæði sem eru ágætlega vel valin sem fyrsta skref. Hér er í raun og veru verið að tryggja lágmarksvernd. Stækkun þjóðgarða í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli er inni sem er gott mál og svo stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom einmitt inn á það hvort það væri möguleiki á því, ef tillögur lægju fyrir, að gera eitthvað í nefndinni. Ég verð að segja að mér finnst að það þurfi a.m.k. að kveða fastar að varðandi Vatnajökulsþjóðgarðinn. Það er frekar vandræðalegt að sagt sé að það eigi að vinna áfram samkvæmt gamalli tillögu meðan við eigum í raun og veru að bíða þess að eitthvað verði formfest sem búið er að koma sér meira eða minna saman um. Við bíðum þess hvaða náttúruverndarsvæði verða innan þessa þjóðgarðs. Við hljótum t.d. að skoða það með Eyjabakkana hvort þeir eigi hugsanlega að koma strax inn hér. Ég hef talið að það þyrfti að breyta þessum texta og jafnvel kveða þannig að að tillagna sé beðið samkvæmt vinnu nefndar um þennan þjóðgarð.

Svo vil ég nefna fjórða svæðið sem byggir á plöntusvæði, gróðurfari og jarðfræði. Þar eru nefnd Geysir í Haukadal og Reykjanes, Eldvörp og Hafnaberg. Auðvitað eru þetta staðir sem verða fyrir áreiti en það eru önnur svæði mjög mikilvæg sem hefði líka þurft að skoða í þessum efnum.

Ég vek athygli á því að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið með mjög skipulega greiningu á tiltækum upplýsingum til að leggja mat á hvaða tegundir eru í hættu og hverjar sé mikilvægt að vernda, og að flokka jarðminjar á Íslandi og meta verndarstöðu þeirra. Það er alveg sérstök vinna sem hefur farið fram varðandi þetta, verndun tegunda og svæða og verndun jarðminja. Sömuleiðis hefur Skógrækt ríkisins lagt áherslu á verndun sérstæðra og náttúrulegra birkiskóga. Miðað við þessar forsendur má setja spurningu við Vatnshornsskóginn, hvaða plöntur eða dýr eru í þeim skógi. Vísindaleg aðferð virðist alls ekki lögð til grundvallar einmitt þessum skógi miðað við þau vinnubrögð sem ég hef drepið hérna lauslega á sem auðvitað hefði þurft að fara nánar ofan í nema að það er mjög stuttur tími fyrir ræðurnar.

[15:00]

Ef velja á birkiskóg á að meta hann samkvæmt sömu forsendum og dýralífið og plönturnar og það virðist ekki hafa verið gert.

Af því að ég nefndi að Geysir og Reykjanes eru staðir sem verða fyrir áreiti vil ég sérstaklega nefna Brennisteinsfjöllin sem eru enn þá mikilvægari og eru heildstætt eldvirkt svæði, eldstöðvar og hraun, ósnert, og það er atriði sem við í Samf. viljum gjarnan að litið sé til í vinnu nefndarinnar, og jafnframt Eyjabakkana eins og ég nefndi í sambandi við Vatnajökulsþjóðgarðinn.

Ég hef auðvitað staldrað við það að alla skilgreiningu vantar á friðlýstu svæðunum. Hvernig verndun verður þetta --- þetta eru ólík svæði --- og hvað má gera á hverju þeirra og hver verða mörk svæðanna? Það kom fram í fyrirspurn hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, og umhvrh. segir að það muni taka fimm ár að skilgreina þessi svæði og eiga allt það samstarf sem þarf til þess. Ég verð að segja að þetta er mjög svifaseint.

Ég ætla í síðari ræðu minni að koma fram með ýmsar athugasemdir sem komu fram á umhverfisþinginu, m.a. að náttúruverndaráætlun á auðvitað alltaf að vera í þróun. Ég sé það fyrir mér að þetta verður auðvitað mjög seinvirkt ef vinnan verður með þessum hætti í hvert skipti sem við tökum á einhverju gagnvart náttúruverndaráætluninni.