Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:25:55 (3776)

2004-02-03 15:25:55# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hreyfir áhugaverðri hlið þessa máls og alveg ljóst að eftir því sem menn eru metnaðarfyllri og ætla sér að taka stærri svæði undir, hlýtur að reyna í fleiri tilvikum á það að um sé að ræða land í einkaeigu. En mér finnst rétt að minna á að það er ekki endilega svo að í því felist einhver skerðing á eigninni þó að hún sé vernduð eða friðlýst. Iðulega má þvert á móti færa fyrir því gild rök að viðkomandi eign verði ef eitthvað er verðmætari þegar hún hefur öðlast þá stöðu að hún er sérstaklega vernduð með stjórnvaldsaðgerðum. Þess vegna er oft spurning um að menn átti sig á því hvað í þeirri aðgerð sem slíkri er fólgið, og er ekki alveg eins líklegt að viðkomandi eign, ef hún verður áfram í einkaeigu, verði, ef eitthvað er, verðmætari. Langheppilegast er að um þessa hluti náist samkomulag þannig að ekki þurfi að reyna á það hvort til bótagreiðslna þurfi að koma eða annað í þeim dúr, en auðvitað getur ríkið og Alþingi ekki útilokað þann möguleika að stundum, af náttúruverndarástæðum, velji menn þá leið að kaupa land eða bæta mönnum þá mögulegu skerðingu sem kann að verða á eignarrétti þeirra eða afnotarétti og nytjarétti af landinu.

Svo er rétt að minna á það, ég veit ekki hvort það hefur komið fram í umræðunni áður, sjálfsagt hefur það gert það hjá ráðherra, að að sjálfsögðu mun Ísland á komandi árum í þessum efnum fylgja þeim alþjóðlegu viðmiðunum og stöðlum sem nú er unnið samkvæmt frá Alþjóðanáttúruverndarráðinu um mismunandi stig verndunar eftir því hvað í hlut á, allt frá alfriðun af því tagi sem við þekkjum í Surtsey og Eldey, þar sem í raun og veru öll umferð er óheimil nema með sérstökum leyfum o.s.frv. og slík svæði sérstaklega tekin frá til rannsókna og algerrar verndunar, og yfir í einhvers konar fólkvanga eða vægara stig verndunar þar sem á engan hátt er hróflað við hefðbundnum afnotum af landinu.