Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:47:11 (3780)

2004-02-03 15:47:11# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég held að þetta hafi verið eftir atvikum góð umræða og athyglisverð og margt gott komið fram. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur lýst meginsjónarmiðum okkar samfylkingarmanna í umhvn. til þessa máls og ég hef engu sérstöku við það að bæta. Vil þó hnykkja á því með henni að fagna þessu þingmáli sem er eins og áður hefur komið fram nýjung og vonandi upphaf nýrra tíma á ýmsan hátt í náttúruverndinni, og segja um leið og endurtaka enn það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að við þurfum auðvitað að bæta aðferðir okkar og vinnubrögð í þessum efnum.

Hér verður ekki staðið á móti því að málið fari með þeim hætti í gegnum þingið sem hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir, en ég tel að í framtíðinni verði að vanda betur til náttúruverndaráætlananna og að koma þeim þannig fyrir þingið að málin séu undirbúnari, það sé ljósara hvernig stendur á með hvert svæði, hvað þar á að gera, hvers konar friðlýsing þar á að fara fram. Og af því að menn hafa verið að tala um það hugtak hér svolítið út og suður þá verður að hrósa ráðherranum fyrir það að á síðu 3 í greinargerðinni eða í þingskjalinu kemur mjög augljóslega fram hvað átt er við með þessari friðlýsingu. Þar er því lýst að hún geti verið með ýmsu móti. Hún geti í tilviki þjóðgarðs verið þannig að strangar reglur gildi um aðra landnotkun, segir þar, með leyfi forseta: ,,... þar sem meginmarkið með stofnun þjóðgarða er að veita fólki aðgang að svæðum þar sem náttúra landsins fær að þróast eftir eigin lögmálum án verulegrar íhlutunar mannsins. Á öðrum svæðum`` --- segir þarna enn fremur --- ,,þarf friðlýsing ekki að koma í veg fyrir aðra landnotkun ef hún gengur ekki í berhögg við tilgang og markmið friðunar.``

Þessi margþætta merking orðsins friðlýsing verður náttúrlega til þess að það þarf að vera alveg klárt fyrir þinginu og frá þinginu hvað átt er við í hverju tilviki þegar þessir staðir eru settir á náttúruverndarskrá.

Það þarf líka að vera skýrara í náttúruverndaráætluninni hvað í henni miðast við hina alþjóðlegu reglu sem við förum eftir, og sem okkur væri skylt að setja allt öðruvísi og nákvæmar fram ef við værum aðilar að Evrópusambandinu, og ekki er fyllilega gætt í þessu plaggi. Það verður svo rætt í umhvn. og vonandi bætt við það. Vonandi kemur hæstv. ráðherra líka þegar líður á vorið bæði með gleggri mynd af því sem hún ætlast til að gert verði og jafnvel með fleiri svæði og ekki síst þau svæði í væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði sem eiga erindi hér inn.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra hér í umræðu um þessi mál að öðru sem ég tel að henni sé skylt að upplýsa um eða veita okkur a.m.k. hlutdeild að hugmyndum sínum um --- það geri ég m.a. vegna þess að um það var rækilega spurt á enn einum fundinum sem hér verður vitnað til í umræðunni, á kynningarfundi Landverndar um rammaáætlunina um orku, vatnsorku og jarðhita, sem haldinn var fyrir nokkrum dögum --- og það er auðvitað um gildi þeirrar áætlunar. Þegar við fáum náttúruverndaráætlun sem m.a. hefur verið gagnrýnd hér fyrir það að taka á sumum hlutum og ekki öðrum, er mikilvægt í almennri umfjöllun um hana að vita hver hugur hæstv. umhvrh. og ríkisstjórnarinnar í heild, hennar og hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnarinnar í heild, sé til rammaáætlunarinnar. Er hún, sem kostaði 555 millj. kr. eða hefur enn kostað 555 millj. kr., sem er dágóð fjárhæð frá skattborgurum, hugsuð sem skrautplagg eða er hún hugsuð til notkunar með einhverjum hætti? Hvaða gildi hyggst ríkisstjórnin leggja til að henni verði veitt?

Þetta er ákaflega mikilvæg spurning og erfitt að fjalla um náttúruvernd og umhverfismál til frambúðar án þess að vita hvaða stefnu hæstv. ríkisstjórn almennt og hæstv. umhvrh. sérstaklega hefur í þessu efni, og ég vil biðja hana að veita þessu máli ofurlítið af tíma sínum á eftir.

Mig langar svo í lokin, um leið og ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir góð vinnubrögð almennt í þessu efni og tel að þetta verði kannski betri minnisvarði um störf hæstv. umhvrh. en ýmislegt annað sem gerst hefur og kannski á eftir að gerast hér í umhverfismálum, að spyrja, vegna þess að það er nefnt sérstaklega í fylgiskjalinu á síðu 5 í þessu plaggi sem hér er lagt fyrir þingið, þar var nefnd Ramsar-áætlunin og þau þrjú svæði sem hafa verið tilnefnd sem Ramsar-svæði og eru öll friðlýst, Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður: Hvað líður þeirri verndaráætlun sem skylt er og rétt að gera um þessi svæði til frambúðar ef þau eiga að haldast sem svæði innan marka þessa samnings?