Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:09:03 (3782)

2004-02-03 16:09:03# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega fagna því sem hæstv. umhvrh. sagði um Gerpissvæðið og um möguleikana á þeim svæðum sem þegar eru í undirbúningi, og að undirbúningur sé kominn langt, að náttúruverndaráætlunin loki ekki fyrir möguleikann á að slíkar friðlýsingar geti átt sér stað samhliða eða til hliðar við svæðin sem eru tilgreind. Það er afar mikilvægt að það hafi komið fram í umræðunni.

Varðandi notkun orða og hugmyndafræðina á bak við friðlýsingar vil ég segja að ein er sú ábyrgð sem umhvrn. vissulega hefur. Hún er sú að uppfræða almenning, skapa umræðu og sjá til þess að fólk sé vel upplýst um náttúruverndarmál. Ef það eru einhver brögð að því að fólk vítt og breitt um landið skilji illa eða misskilji orð eins og friðlýsingu vil ég meina að það sé á ábyrgð umhvrn. og hæstv. umhvrh. að koma í veg fyrir slíkan misskilning, að skýra orðræðuna, að vinna þennan hluta starfs síns, þ.e. fræðslu- og upplýsingamálin þannig að fólk sé með það algerlega á hreinu hvað verið er að tala um þegar við erum að tala um friðlýsingu. Það skiptir verulegu máli að orðaval okkar í þessum efnum sé nákvæmt og það er ekki á ábyrgð neins annars en umhvrn. eða stofnana þess að sjá til þess að svo sé. Ég hvet því hæstv. umhvrh. til að efla þá umræðu og fræðslu og sjá til þess að orðanotkunin verði skýr og gegnsæ og allir viti um hvað verið er að tala.

Svo vil ég segja varðandi það að menn séu svo hræddir við að það megi ekkert gera á svæðunum þó að þau njóti friðlýsingar, þá er það líka þáttur sem umhvrn. á að sjá til að fólk hafi á hreinu, þ.e. hvað friðlýsing þýðir. Hvað felur hún í sér? Hvað er heimilt að gera á friðlýstum svæðum og hvernig ber fólki að haga sér á þeim? Hver er ábyrgð okkar gagnvart þeim og hvernig tryggjum við vernd á svæðunum? En ekki hvernig tryggjum við að menn geti komið inn á friðlýst svæði og ráðskast með það.