Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:11:13 (3783)

2004-02-03 16:11:13# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algerlega sammála hv. þm. um að mikilvægt sé að reyna að skýra þau hugtök sem notuð eru og það höfum við einmitt verið að gera, sérstaklega af því að við fáum þessi viðbrögð. Fólk segir bara: Á að friða hér? Nei takk, kemur ekki til greina. Við viljum geta gert eitthvað hérna í framtíðinni. Við höfum því reynt að upplýsa hlutaðeigandi aðila, ég hef átt mjög marga fundi þar sem við höfum farið í gegnum þessa umræðu með sveitarfélögum, landshlutasamtökum sveitarfélaga, með ungliðasamtökum stjórnmálaflokkanna og fleiri aðilum, en þetta er mjög djúpt inni í þjóðarsálinni að halda að friðun sé þannig að það megi ekkert gera á svæðinu í þrengsta skilningi. Ég hef reynt að útskýra þetta með því að segja: Friðun er ekki friðun, eins og það hljómar nú fáránlega. En þegar reglur eru settar á svæði sem er friðað eða verndað, eru þær reglur sérsmíðaðar fyrir hvert svæði. Þær eru ekki eins á milli eiginlega neinna tveggja svæða af því að það er svo misjafnt hvað verið er að vernda og svo misjafnt hvernig menn vilja ná henni fram. En ég vil benda hv. þm. á af því að hún tilheyrir stjórnmálaflokki sem á kannski einhverja sök á því að menn upplifi þetta orð, friðun svæðis, þannig að það megi ekki gera neitt á svæðinu. Hér hefur t.d. í langan tíma verið tekist á um Þjórsárverin og ég hef ekki heyrt hv. þm. suma hverja halda því til haga að í friðlýsingarákvæðinu um Þjórsárverin kemur fram þar að það megi setja lón inni í Þjórsárverum með ákveðnum skilyrðum. Með þessu er ég ekki að segja að ég styðji það, alls ekki. Ég hef sagt ákveðna hluti í því sambandi. En mér finnst eðlilegt að benda hv. þm. á að því var ekki haldið til haga af þeim sem harðast gengu fram í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um Þjórsárverin og það hefði verið mjög upplýsandi fyrir þjóðina ef því hefði verið haldið til haga.