Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:13:26 (3784)

2004-02-03 16:13:26# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra veit nákvæmlega hvað stendur í friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera. Það stendur, ég held ég muni það orðrétt, að það sé heimilt að setja þar eitthvert lón ef það skerði ekki verndargildi veranna að mati Náttúruverndar ríkisins, nú Umhverfisstofnunar. Og Náttúruvernd ríkisins hefur kveðið upp úr með það, að vegna náttúruverndarsjónarmiða komi lón til með að skerða náttúruverndargildi veranna. Það liggur fyrir ákveðinn úrskurður og umsögn Þjórsárveranefndar í þeim efnum. Það er því algerlega búið að meta landið þannig að það mun aldrei verða heimilað lón inni í Þjórsárverunum fyrir innan friðlandsmörkin vegna þess að það kemur til með að skerða náttúruverndargildi veranna. Þetta eru auðvitað reglur sem eins og hæstv. ráðherra segir réttilega gilda um hvert einstakt svæði, ákveðnir skilmálar sem settir eru þegar svæðin eru friðlýst. Í þessu tilfelli voru þessir skilmálar settir inn, kveðið á um það með gildum úrskurði að náttúruverndargildi Þjórsárvera er skert óhóflega ef þar verður sett inn lón. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að lesa gaumgæfilega það sem segir í tillögu Umhverfisstofnunar á bls. 238 og 239. Þar kemur óyggjandi fram að að mati Umhverfisstofnunar sé umtalsvert gróðurlendi utan núverandi marka friðlandsins sem líta beri á sem hluta af Þjórsárverum. Umhverfisstofnun talar því um að hluti af verunum sé utan friðlandsmarkanna og mælir þess vegna með því að friðlandsmörkin verði stækkuð og segir jafnframt að með breyttum mörkum friðlands muni bætast m.a. við gróðurvinjar á borð við Kjálkaver og Loðnaver sem hvor tveggja séu afar grösugir og mikilvægir varpstaðir, beitilönd og fellistaðir heiðagæsa. Og mér finnst hæstv. umhvrh. skulda þó ekki væri nema heiðagæsinni það fyrir öll þau hreiður sem tekin eru af henni við Kárahnjúka að sjá til þess að hún hafi möguleika á að eiga þau svæði sem möguleg eru í Þjórsárverum.