Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:15:37 (3785)

2004-02-03 16:15:37# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á þennan málflutning. Eins og maður skuldi heiðagæsinni eitthvað þegar hún er í þvílíkum vexti að annað eins hefur aldrei sést. Hv. þm. talar eins og við sjáum fram á síðustu heiðagæsina á landinu. Það er alls ekki þannig.

Ég held að eitthvað hljóti að hafa skolast til hjá hv. þm. varðandi Þjórsárverin af því að hæstv. heilbrrh., þá sitjandi umhvrh., Jón Kristjánsson, kvað upp úrskurð um að ekki mætti hafa lón inni í verunum.

Ég vil líka draga fram að Umhverfisstofnun, þ.e. eftir að búið er að leggja niður Náttúruvernd ríkisins fer Umhverfisstofnun með það vald, hefur sett fram þá skoðun á lóni því sem verið hefur til umræðu, sem er utan við friðlandið í Þjórsárverum, að það muni ekki skerða friðlandið á nokkurn hátt. Það er faglegt mat þeirrar stofnunar. Samt hafa mjög margir, þar á meðal Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, verið algjörlega andsnúnir því lóni. Maður áttar sig ekki á því. Stundum vill hv. þm. verja sig með Umhverfisstofnun og stundum ekki, bara eftir því hvernig vindar blása.