Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:32:12 (3790)

2004-02-03 16:32:12# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa misskilið þetta. Það má auðvitað hugsa sér það að leggja einhvern nefskatt á hótel í landinu. Nú er það samt þannig að mörg hótel úti á landi standa ekki undir sér, reksturinn er erfiður vegna þess að ferðamannatíminn er mjög stuttur og af þeim sökum er eðlilegt að ferðaþjónustan standi gegn þessu. Þess vegna held ég að þessi hugmynd sé óraunhæf, algjörlega óraunhæf.

Miklu fremur er ástæða til að velta því fyrir sér hvort nauðsynlegt kunni að vera að veita stofnstyrki til uppbyggingar ferðaþjónustu víða um land til þess að gera hana samkeppnisfæra og öflugri en hún er fremur en hitt að fara að leggja á hana nýja skatta. Það líst mér ekki á. Ég hélt satt að segja að þessi hugmynd væri löngu dauð og að menn hefðu áttað sig á því að hún gengur ekki upp í okkar strjálbýla landi.

Ef hugmyndir stæðu hins vegar til þess að koma heitu vatni t.d. til Ásbyrgis má auðvitað hugsa sér að ef þar yrðu byggð hótel eða einhver gistihús greiddu þeir eitthvað sérstaklega fyrir þá aðstöðu vegna þess að hún margfaldar möguleika þeirra til að fá fólk til sín.

Ef við færum hér kaupstað úr kaupstað og reyndum að átta okkur á efnahag hótelanna ætli hæstv. ráðherra yrði þá ekki sammála mér um að þetta gistinæturgjald yrði að vera með öfugum formerkjum þannig að ríkið yrði að greiða með hverju herbergi til þess að þetta stæði undir sér og til þess að það aumingja fólk sem er að reyna að taka þennan rekstur að sér gangi ekki of nærri sér?