Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:55:11 (3794)

2004-02-03 16:55:11# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., Flm. BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Samf. hefur síðustu vikur verið að kynna menntasókn Samf. þar sem við leggjum til umfangsmiklar breytingar á menntakerfinu.

Í fyrsta lagi viljum við ráðast í átak á háskólastiginu, í öðru lagi efla starfsmenntunina og í þriðja lagi það sem við köllum nýtt tækifæri til náms fyrir þá sem hafa grunnskólapróf, hafa ekki lokið framhaldsskólaprófi eða vilja bæta við fyrri menntun sína.

Fyrsti flm. þess væntanlega þingmáls sem við fluttum í fyrra líka er hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Mun hann kannski tæpa á því máli síðar í umræðunni.

Hvað varðar forgangsröðun til eflingar starfsmenntun er fyrst og fremst um skipulags- og hugarfarsbreytingar að ræða. En auðvitað kostar peninga að efla námið til lengri tíma litið. Það er hlutverk þeirrar nefndar sem við leggjum hér til að verði skipuð að kostnaðarmeta þær breytingar sem hún telur að þurfi að gera. Við leggjum nefndinni ekki til neinar niðurstöður fyrir fram og þar af leiðandi er ekki ljóst í hvaða breytingar þarf að ráðast til að gera verulegar og róttækar umbætur svo að starfsmenntun í framhaldsskólakerfinu geti náð vopnum sínum aftur. Kostnaðarmat á framkvæmdunum getur ekki legið fyrir fyrr en búið er að leggja til frá nefndinni hvað þurfi að gera til að efla starfsnámið.