Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:25:03 (3801)

2004-02-03 17:25:03# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að ég hygg að það sem hv. þm. nefndi sé ekki meginvandinn. Ég vísa til reynslu minnar sem skólameistara í 10 ár með mikinn á huga á að byggja upp starfsnám.

Með einni undantekningu minnist ég þess varla að hafa nokkru sinni setið undir þrýstingi frá atvinnulífinu um að taka inn starfsmenntabrautir. Það var kannski frekar skólinn sem kallaði eftir því hjá atvinnulífinu.

Auðvitað þarf hið margfræga reiknilíkan að vera í stöðugri endurskoðun. Ég hygg að svo sé. Það eru líka ljós í myrkrinu, má segja. Atvinnulífið hefur á síðustu missirum verið að taka við sér. Þannig er t.d. orðið til eitthvað sem heitir Baugsskólinn, með mjög metnaðarfulla námskrá fyrir afgreiðslubrautir og hin ýmsu þrep á því sviði. Sama er með Samkaupsskólann og þar fram eftir götunum.

Ég vil vekja athygli á því að hið opinbera hefur ýmsa starfsnámsskóla en heldur þeim frekar lokuðum. Hvað með ungt fólk sem vill fara í löggæslustörf, verða tollverðir, vinna í bönkum, hjá slökkviliði o.s.frv.? Þess gætir ekki þegar unga fólkið er að velja sér námsbrautir inn í framhaldsskóla. Ég þekki það frá heimabanka mínum á Suðurnesjum að gjaldkerar þar eru fyrrverandi nemendur mínir sem flestir hafa stúdentspróf. En þeir áttu þess aldrei kost að leggja stund á það að verða bankafólk meðan þeir voru í skóla. Fyrir þessa þætti þarf að opna. Það þarf að opna þessa lokuðu ríkis- og hálfríkisskóla, og hleypa þeim inn í framhaldsskólann. Þegar ungar manneskjur koma úr grunnskóla inn í framhaldsskólann þá ætti framhaldsskólinn að endurspegla betur þær greinar atvinnulífs sem eru starfræktar. Þar með á hver og einn frekar að geta fundið sér nám við hæfi og blómstrað, í stað þess að hrekjast úr skólanum sem brottfallsnemandi.