Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:27:16 (3802)

2004-02-03 17:27:16# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., Flm. BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (andsvar):

Frú forseti. Lokaorð hv. þm. voru í raun ágætis yfirskrift fyrir þá umræðu sem fram fer hér í dag, þ.e. nám við hæfi. Það má auðveldlega leiða líkur að því að þetta himinháa brottfall sé þjóðfélaginu afar dýrt og einstaklingnum dýrkeypt, að fara út í lífið án þess að hafa orðið sér út um starfsréttindi einhvers konar, þó ekki væri nema sem tryggingu og aðgengi að vinnumarkaðnum.

Eins og málum er háttað í nútímanum blasir við að ef menn eru án nokkurra fagréttinda eða án sérhæfingar, hvort sem það er í verslun, þjónustu, iðnaði eða lengra námi, þá eru þeir ekki vel settir þegar harðnar á dalnum. Það fólk missir fyrst atvinnuna. Það er fólkið sem er stendur hvað berskjaldaðast gagnvart öllum hræringum, sviptingum og sveiflum í samfélaginu. Því er mjög áríðandi að búa svo um hnútana í framtíðinni að komandi kynslóðir fari út í lífið meira og minna með réttindi í farteskinu. Það gerir fólki auðveldara að bæta við sig og fara inn á nýjar brautir seinna meir.

Þetta er algjört lykilatriði, virðulegi forseti. Ég tek undir allt sem hv. þm. benti á, að það er sjálfsagt að taka þjónustuna og hinar mörgu greinar hennar og hina lokuðu ríkisskóla, eins og hann kallar það, inn í heildarendurskoðun á starfsnámi og styttri námsbrautum.

En upp úr stendur, og ég ítreka það við hv. þm., að við getum ekki beðið eftir því að frumkvæðið komi utan úr bæ. Við eigum að sjálfsögðu að efla og hvetja atvinnulífið af öllum mætti til að koma að málinu. Frumkvæðið og metnaðurinn á að koma frá stjórnvöldum.