Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:32:47 (3804)

2004-02-03 17:32:47# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða um nokkuð afmarkaðan hluta þess sem felst í þessari þáltill. um iðn- og verknám.

Það er rétt sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að hér hafa verið haldnar margar ræður um það málefni sem er nú til umræðu. En hann bar blak af stjórnvöldum, það væri ekki við þau að sakast, það væri ekki síður við atvinnulífið.

Ég held að það skili litlu hverjum þetta er meira að kenna, en hitt er þó alveg ljóst að stjórnvöld hafa ekki sýnt verkmenntun og iðnnámi þann skilning sem þurft hefði á undanförnum árum. Ég hef fylgst með því allt frá því að Fjölbrautaskóli Vesturlands var stofnaður fyrir 25--30 árum, ég man það ekki nákvæmlega, vegna þess að þá var Iðnskólinn á Akranesi, sem þótti ágætur skóli á þeim tíma, lagður inn í þennan nýja skóla af bæjaryfirvöldum. Menn ætluðu sér að leggja mjög mikla áherslu á iðn- og verknám í skólanum á Akranesi og hafa leitast við að gera það allan þennan tíma. Samt hefur þessi skóli orðið að taka því að þar hefur námsbrautum fækkað, árum saman hefur þurft að leggja þar niður námsbrautir sem áður voru vegna þess að fjármunir til iðn- og verkmenntunar voru af svo skornum skammti, og vegna þess að það var miklu ódýrara að reka aðrar brautir skólans. Þannig hefur þetta verið alveg fram á síðustu tíma. Þess vegna þurfa menn ekki að vera undrandi á því þó að þessum greinum hafi hrakað á sumum stöðum. Það er líka alveg ljóst að það er svæðisbundin eftirspurn eftir iðn- og verknámi. Þar sem tekist hefur vel til þar hefur eftirspurnin verið meiri.

Eitt er það sem mér finnst að menn þurfi að velta vel fyrir sér í þeirri vinnu sem ég satt að segja vona að verði fram undan í því að endurmeta þessa hluti og reyna að koma betri skikkan á þá og það er endurmat á iðn- og verkgreinum, að þar séu menn ævinlega að yfirfara hvernig námið eigi að vera saman sett, og það gerist auðvitað með samstarfi við atvinnulífið, ekki ætla ég að draga úr því. Við höfum séð iðngreinar úreldast og í raun og veru hverfa vegna þess að áhuginn á því að fara í nám í þeim hefur gufað upp og stundum tel ég að þar hafi orðið slys sem ekki hefði þurft að verða. Ég er alveg sannfærður um að hægt hefði verið að standa betur að þeim málum og brautir þyrftu í raun og veru að vera miklu betur skilgreindar fyrir fólk þar sem það fengi einhvers konar skilgreind skírteini fyrir nám sem það gæti haft til sönnunar fyrir námi sínu. Þetta geta líka verið einstaklingsmiðaðir hlutir því að við verðum auðvitað að horfast í augu við það að námsframboð, þekkingarframboð í landinu er alltaf að aukast og það verður meira og meira einstaklingsbundið hvaða þekkingu menn leita eftir. Við þessu þurfa menn auðvitað að bregðast þannig að prófskírteini viðkomandi sé skírteini hans um það hvað hann hefur til brunns að bera á því sviði sem hann hefur aflað sér þekkingar á.

En svo er annar hluti af þessu sem mér finnst skipta miklu máli og hefur ekki verið ræktaður af stjórnvöldum hér á landi, og það er að við krefjumst mismunandi réttinda fyrir fólk eftir því hvaða nám það hefur stundað. Sums staðar er gerð krafa um það að menn hafi stundað eitthvert tiltekið nám. Ég held t.d. að það detti engum í hug að hægt sé að fara að vinna sem rafvirki öðruvísi en að hafa lært það, og enginn keyrir bíl sem meiraprófsbílstjóri öðruvísi en að hafa það meira próf. Þessu er fylgt eftir. Starfsréttindi í ýmsum öðrum greinum eru alls ekki þessu marki brennd. Og nú ætla ég ekki að halda því fram að banna eigi fólki sem ekki hefur farið í gegnum fullt iðnskólanám í einhverjum tilteknum greinum, að vinna í greininni. En þetta er verra en það. Á mörgum sviðum er ekki gerð krafa um að neinn á viðkomandi vinnustað hafi starfsréttindi í greininni, hvað þá meistararéttindi eða eitthvað sambærilegt sem eðlilegt væri að krefjast. Ég held að þarna þurfi menn líka að fara yfir þessi mál og skoða.

Ég held að það megi t.d. alveg færa fram fyrir því gild rök að Fiskvinnsluskólinn hafi lagst niður vegna þess að hvergi er gerð krafa um það að menn hafi þessa þekkingu. Auðvitað finnst manni að það þurfi að vera virkileg þekking á bak við það starf og þá meðferð matvæla sem fram fer t.d. um borð í frystitogurum. En þar vildu menn ekki borga kaupið sem þurfti að borga fyrir það að hafa þar um borð menn sem höfðu lært í Fiskvinnsluskólanum.

Aðrar iðngreinar eru sama marki brenndar sumar, að þar eru ekki gerðar kröfur. Hið opinbera hefur gert upp á milli iðngreina með alveg sérstökum hætti hvað varðar kröfur af þessu tagi. Og enn einu sinni ætla ég að minna á það að sú eftirlitsstofnun ríkisins sem heitir Siglingastofnun ríkisins gerir engar kröfur um meistararéttindi eða starfsréttindi í þeirri grein, heldur annast sjálf ljósmóðurhlutverkið á öllu sem þar er gert, og það er sambærileg iðngrein við byggingariðnaðinn í landinu þar sem slíkar kröfur eru fullkomlega gerðar. Enginn byggingareftirlitsmaður í landinu mundi líða það að það væri ekki meistari sem bæri ábyrgð á því húsi sem hann væri að líta eftir. Þá kröfu gerir Siglingastofnun ríkisins ekki þegar hún er að fylgjast með t.d. skipasmíðum.

Það er því víða sem fara þarf yfir þessa hluti og skoða og það er ekki bara námið sjálft, það er líka það umhverfi sem menn sækja inn í. Menn fara ekki í nám nema þeir sjái tilgang í því og hann hefur stundum vantað.