Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:41:04 (3805)

2004-02-03 17:41:04# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., EMS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:41]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Hér ræðum við tillögu okkar þingmanna Samf. um eflingu iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum.

Það er rétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að tillagan er í raun og veru tillaga um endurskoðun á menntakerfinu, hluta menntakerfisins sem tengist hins vegar stórum hluta menntakerfisins og það er auðvitað full ástæða til þess að farið verði skipulega í það að endurskoða menntakerfið, þó ekki væri nema vegna þess að við höfum setið allt of lengi með hæstv. menntamálaráðherra úr Sjálfstfl. sem hefur því miður skort mjög metnað á þessu sviði.

Hér er fyrst og fremst verið að fjalla um ákveðinn þátt menntakerfisins og hann þarf svo sannarlega að endurskoða. Búið er að benda á nokkra þætti sem eru mjög áberandi þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Í fyrsta lagi hið öfuga hlutfall sem er á milli þess hluta sem stundar verknám eða starfsnám hjá okkur og síðan hefðbundið bóknám til stúdentsprófs, og það eru ekki síður hinar ógnvænlegu tölur um brottfall sem skera okkur algjörlega úr í samanburði við aðrar þjóðir.

Það var einnig rétt hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að mjög margar ræður hafa verið haldnar um þennan hluta menntakerfisins og skrifaðar hafa verið margar skýrslur og líklega hafa verið lagðar fram mjög margar tillögur um að efla þyrfti starfsnám. Og við höfum oft og tíðum heyrt ræður forsvarsmanna íslenskra stjórnmála á hátíðisdögum um það hversu mikilvægt væri að efla starfsnám. Því miður hafa orðin verið miklum mun fleiri en verkin og þess vegna stöndum við á þeim stað sem við stöndum í dag. Það er ljóst að þetta er líklega eitt það almikilvægasta sem við þurfum að taka á í íslensku menntakerfi vegna þess að þar sem hallar mest á hjá okkur er námið í framhaldsskólum og þá fyrst og fremst starfsnámið.

Hins vegar er hægt að velta fyrir sér ólíkum leiðum og það er alveg klárt mál að möguleikarnir eru margir til þess að efla starfsnámið. En hins vegar er alveg ljóst, og þess vegna er tillagan auðvitað byggð þannig upp, að það þarf að mynda hóp, það þarf að vera samstillt átak allra aðila sem að þessu koma til þess að árangur náist. Það hafa nefnilega stundum verið samþykktar tillögur og jafnvel verið samþykktir stjórnarsáttmálar þar sem þetta hefur verið markmið en ekkert náðst fram. Og við höfum líka orðið vör við ýmsar ályktanir á þingum ýmissa aðila á vinnumarkaði um að þetta skuli nást en því miður hefur lítið gerst.

Ekki er þó hægt að horfa fram hjá því að á seinni árum hefur orðið veruleg breyting á viðhorfum, m.a. í atvinnulífinu, og þess vegna eru sögur hv. þm. Hjálmars Árnasonar frá þeirri tíð fyrir margt löngu þegar hann var skólameistari kannski ekki alveg í takt við nútímann því að breytingar í atvinnulífinu hafa verið mjög miklar í þessa átt, og hv. þm. nefndi sjálfur dæmi um það að sumir stórir aðilar á vinnumarkaði hafi sjálfir sett upp skóla sem sýnir það að áhuginn er gjörbreyttur, en sem sýnir okkur einnig að hið opinbera skólakerfi hefur dottið úr takti við umhverfið og það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur.

Þess vegna hafa t.d., eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, ýmis vandkvæði komið upp vegna skorts á vinnuafli með ákveðna menntun og ákveðna þekkingu, og það eru ýmsir aðilar farnir að hafa áhyggjur af því að ákveðin starfsmenntun, starfsþekking sem er til staðar í samfélagi hjá okkur í dag, sé hreinlega að hverfa og afleiðingar af því verði mjög uggvænlegar fyrir þróun okkar samfélags. Því er þessi tillaga auðvitað jafntímabær og allar þær tillögur sem komið hafa á undanförnum áratugum í þessa átt.

[17:45]

Það er hins vegar afar sérkennilegt að stærri hluti stjórnarheimilisins, þ.e. Sjálfstfl., skuli nú ekki sýna svo mikilvægu máli meiri áhuga en svo að einn hv. þm. Sjálfstfl., Sigurður Kári Kristjánsson, kemur hér með örlítið andsvar þar sem fyrst og fremst er spurt um kostnað. Fyrst og fremst er spurt um kostnað. Það skyldi þó ekki vera hluti af skýringunni á því hve lítið hefur gerst í stjórnartíð Sjálfstfl. og setu hans í menntmrn. að það er ætíð horft aðeins á kostnað við framkvæmd góðra tillagna en ekki hvaða kostnaður hlýst af því að framkvæma ekki slíkar tillögur. Það hefur einmitt verið bent á það hér í umræðunni að það er gífurlegur kostnaður við það hvernig skólakerfið fer með fjölda fólks og nefni ég þá eingöngu brottfallið í því samhengi.

En það er margt fleira sem kemur inn í þetta. Ég kannast við könnun sem að vísu er nokkurra ára gömul sem sýndi að nemendur í 10. bekk höfðu hlutfallslega miklu meiri áhuga á því að fara í margs konar starfsnám en skilaði sér síðan í framhaldsskólunum vegna þess að þá hafði hlutfallið algjörlega breyst. Hlutfall áhugans hins vegar hjá nemendum sem eru að ljúka efsta bekk grunnskólans var mjög svipað og við þekkjum í nágrannalöndum okkar. Skýringin á þessum hlutföllum er ekki sú að áhuginn sé annar hjá nemendunum, heldur er hann örugglega kerfislægur, þ.e. skólakerfið er vitlaust uppbyggt, það eru rangar áherslur í því.

Hv. þm. Hjálmar Árnason benti m.a. á mjög athyglisverðan þátt, hina lokuðu starfsmenntaskóla hins opinbera. Það er afar sérkennilegt hvernig skólakerfið hefur þróast innan hins opinbera geira. Það er ekki bara það að menntakerfið kemur víða við í ráðuneytunum. Það er ekki bara í menntmrn., það er miklum mun víðar í stjórnsýslunni þar sem verið er að stjórna skólum eða hafa yfirumsjón með skólastarfi. Síðan eru reknir litlir starfsmenntaskólar sem eru algjörlega lokaðir nema eftir mjög þröngum leiðum sem eru settar algjörlega út frá því hver þörfin er hverju sinni nákvæmlega í hverri stofnun fyrir sig.

Þetta er ekki það opna skólakerfi sem við viljum sjá. Við viljum auðvitað sjá að allir sitji við sama borð og að áhugi nemandans sé nýttur til hins besta því hann er helsti drifkraftur hvers nemanda gegnum skólakerfið. Og við þurfum að horfa á þessa þætti. Það er mjög athyglisvert þegar við horfum til annarra landa og á þá ríkisstjórn sem við sitjum uppi með núna að skoða hvernig hún hefur oft tekið upp einstaka þætti úr framkvæmdasemi annarra þjóða. Það frægasta var á haustdögum varðandi atvinnuleysistryggingar þegar eingöngu var tekinn út einn þáttur um það hvenær ætti að byrja að greiða atvinnuleysisbætur en ekki væri hægt að horfa til þess hvaða upphæðir ætti að greiða ef þær væru greiddar í nágrannalöndunum.

Sama má raunverulega segja um menntakerfið. Við getum mjög margt lært af nágrannaþjóðum okkar vegna þess að þar hafa flestar ríkisstjórnir áttað sig á því að það er ein mikilvægasta fjárfesting hverrar þjóðar að efla menntakerfi sitt og hækka menntunarstig þjóðarinnar. Það er alveg klárt mál að ef sá hópur sem hér er gerð tillaga um næði saman væri stigið heilladrjúgt skref í þá átt að efla íslenskt menntakerfi og hækka menntunarstig þjóðarinnar.