Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 18:35:34 (3812)

2004-02-03 18:35:34# 130. lþ. 55.5 fundur 28. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[18:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það er virðingarvert hjá hv. þm. að taka þátt í umræðunni og staðfesta þar með tilvist Framsfl. Hún er enn staðreynd hér í þingsölum. Ég dreg ekki í efa góðan hug hv. þm.

Hins vegar hefur vakið mikla athygli að Framsfl. skyldi hverfa frá fyrri stefnu sinni um að einkavæða ekki grunnnet Landssímans eða Símans, halda fyrirtækinu í opinberri eigu og halda áfram að byggja það upp þannig. Það var stefna Framsfl. þangað til fyrir nokkrum árum að Framsfl. lét Sjálfstfl. kúska sig og gekkst inn á það að einkavæða Símann í heilu lagi. Þá voru slegnir þessir varnaglar, að manni virtist, t.d. í þessari flokksályktun sem ég las upp áðan, þ.e. að Síminn yrði þó ekki seldur fyrr en búið væri að verja umtalsverðu fjármagni til uppbyggingar í fjarskiptakerfinu.

Þá er náttúrlega nærtækt að spyrja: Standa málin þannig að Framsfl. setji stopp á að hafist verði handa við einkavæðingu Símans þangað til þessu umtalsverða fjármagni hefur verið varið í uppbyggingu kerfisins? Það væri ákaflega ánægjulegt ef við gætum fengið það staðfest. Ég hef grun um að hæstv. fjmrh. telji sig vera alveg kófsveittan við að undirbúa sölu Landssímans á næstu mánuðum.

Suma grunar að fjárfestingarnir í Búlgaríu séu aðeins forsmekkur þess sem í vændum er, að Síminn renni inn í þá samsteypu eða í þá átt. Þess vegna viljum við gjarnan vita sem fyrst hver hin raunverulega staða málsins er í stjórnarherbúðunum. Það skiptir þrátt fyrir allt miklu máli, burt séð frá pólitískum ágreiningi um einkavæðingu Símans, hvernig hann skilur við ef hann verður einkavæddur. Það hefði strax lagað stöðuna að okkar mati ef Símanum hefði verið gert að fara í myndarlegt átak við að bæta fjarskiptakerfið áður en hann yrði seldur.