Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 19:02:42 (3819)

2004-02-03 19:02:42# 130. lþ. 55.6 fundur 114. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[19:02]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum.

Flutningsmenn ásamt mér eru aðrir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið varðveiti sjálfstæði sitt og fullveldi og standi utan ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki, bandalög og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Sérstök áhersla verði lögð á þátttöku í vestnorrænu og norrænu samstarfi og aðra svæðisbundna samvinnu í okkar heimshluta, þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og starfi Evrópuráðsins.

Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.

Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar.``

Það má geta þess strax í upphafi í því sambandi að hæstv. forsrh. hefur verið með þær hugmyndir að setja á fót nefnd sem tæki a.m.k. á þeim þætti málsins sem snýr að tengslum og samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Því miður hefur það ekki komist á koppinn enn þá, en var rætt bæði fyrir síðustu alþingiskosningar og hefur eins verið rætt núna eftir þær að slík nefnd taki til starfa. Og eins og ráða má af anda þessarar tillögu mundum við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að sjálfsögðu fagna slíku.

Við teljum mikilvægt, og það má segja að það sé einn útgangspunktur þessarar tillögu, að það sé eftir atvikum reynt að hafa eins mikla festu í stefnu Íslands að þessu leyti og kostur er. Það er engum til góðs sérstaklega að hafa óljósar áherslur eða hafa þessa hluti meira í lausu lofti en þörf krefur. Ef það er sameiginlegt mat manna og sameiginleg niðurstaða, eða verður a.m.k. niðurstaða meiri hluta sem ég trúi nú að verði, að hagsmunum okkar sé betur borgið án aðildar að Evrópusambandinu í fyrirsjáanlegri framtíð, þá er skynsamlegt að ganga út frá því og ákveða það um sinn að þannig verði það. Það er ákaflega sérkennilegur málflutningur, sem er víða fyrirferðarmikill, að þetta hljóti eiginlega að vera þannig að menn verði að vera með þessa hluti í höndunum upp á hvern einasta dag.

En leiðum aðeins hugann að því hversu gott það sé fyrir atvinnulíf, fyrirtæki, stofnanir, utanríkisþjónustuna eða aðra slíka aðila ef þetta mál er endalaust hangandi í einhverri óvissu. Þó svo að menn gengju ekki lengra en það að segja sem svo að miðað við núverandi aðstæður eins og málin blasa við okkur til næstu fimm ára litið eða svo, þriggja til fimm ára, reiknum við ekki með því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Við munum því gæta hagsmuna okkar á öðrum grunni, á þeim grunni sem fyrir er eða eftir atvikum með breytingum á honum, og á því verður okkar stefna byggð. Með öðrum orðum að það sé einhver stefnufesta, að reynt sé að innbyggja einhverja stefnufestu í þessi mál.

Það var tvímælalaust það sem vakti fyrir mönnum m.a. með skipun Evrópustefnunefndarinnar á sínum tíma, sem starfaði á níunda áratug síðustu aldar og skilaði merku starfi. Það var viðleitni manna til þess að hafa þau mál í tilteknum farvegi.

Við erum eindregið þeirrar skoðunar, flutningsmenn þessarar tillögu, að utanríkisstefna okkar eigi að byggjast á víðsýni og góðum samskiptum til allra átta. Við eigum að forðast að loka okkur af innan hvers konar ríkjabandalaga. Það er alveg ljóst að Evrópusambandið þróast um þessar mundir hratt í áttina að ríkjabandalagi eða ,,Federation``, og er nánast sama hvar borið er niður að alls staðar er þróunin í þá átt. Nýjasta nýtt er að Evrópusambandið hyggst nú þvinga stjórnmálaflokka í þeim löndum sem tilheyra Evrópusambandinu til að sameinast undir einn hatt í evrópska stjórnmálaflokka og nota til þess fjárstuðning við stjórnmálalífið að þvinga slíka þróun fram.

Við göngum einnig út frá því sem er, held ég, óumdeild staðreynd að Íslendingum hefur vegnað vel sem sjálfstæðu lýðveldi. Við höfum alla burði til að gera svo áfram. Og við sjáum ekki annað en við getum nýtt okkur kosti þess með svipuðum hætti og við höfum út af fyrir sig gert hingað til, að rækta góð samskipti við nágranna okkar, Norðurlandaþjóðir og aðra, og í allar áttir.

Í ítarlegri greinargerð, frú forseti, er farið nokkuð rækilega yfir þetta mál og það rökstutt. Þar er rætt í sérstökum köflum um þróun alþjóðaviðskipta. Það er rætt sérstaklega og ítarlega um Ísland og Evrópusambandið. Komið inn á það sem ég áður nefndi að óvissa sé í sjálfu sér skaðleg íslenskum hagsmunum, þ.e. að æskilegt sé að reyna að hafa í þessu þá stefnufestu sem kostur er. Það má enginn misskilja það sem svo að þar með ætli menn að loka öllum skilningarvitum og hætta að fylgjast með því sem er að gerast og vera vakandi fyrir breytingum. Af sjálfu leiðir, það er óþarfi að taka slíkt fram, að það að rækta, byggja upp og rækta utanríkistengsl einnar sjálfstæðrar þjóðar er að sjálfsögðu eilífðarverkefni sem lýkur aldrei í eitt skipti fyrir öll.

Í greinargerðinni er farið ítarlega yfir það sem við teljum vera, flutningsmenn, helstu rök bæði með og á móti aðild að Evrópusambandinu og okkar niðurstaða er skýr. Hún er sú að það séu miklu fleiri og meiri ókostir því samfara en það sem vinnist. Það er rökstutt ítarlega í einum átta töluliðum hvað ókostina snertir, hverra fyrirsagnir eru um afsal sjálfstæðis og fullveldis og glataða sérstöðu sem væri fólgin í aðild. Það eru skertir möguleikar til sjálfstæðrar efnahagsstjórnar, sem að sjálfsögðu leiða af því að taka upp evruna sem yrði óhjákvæmilegur fylgifiskur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Það er komið inn á það að hagsmunum sjávarútvegsins yrði fórnað. Þetta yrði áfall fyrir íslenskan landbúnað. Hagsmunir ferðaþjónustu gætu orðið mjög blendnir. Komið er inn á það, sem er nú ekki mjög umdeilt, að í Brussel sé ákvarðanataka ólýðræðisleg. Um sé að ræða fjarlægt og miðstýrt apparat sem valdið mundi færast til héðan að heiman. Bent er á það að Evrópusambandið er tollabandalag og við mundum því lenda inn fyrir vafasama tollmúra. Við mundum t.d. þurfa að taka upp tolla í viðskiptum við lönd sem við eigum tollfrjáls viðskipti við í dag, þ.e. við yrðum ósköp einfaldlega að taka upp allar tollareglur Evrópusambandsins og það er auðvelt að sýna fram á að það mundi í vissum tilvikum þýða versnandi viðskiptakjör, t.d. fyrir fiskafurðir í fjarlægum löndum. Og síðast en ekki síst er komið inn á kostnaðinn sem yrði umtalsverður. Um það hafa menn að vísu mikið deilt og mismunandi útreikningar verið á ferðinni en engum blandast þó neinn hugur um það að Ísland yrði umtalsverður nettógreiðandi inn í Evrópusambandið. Það leiðir af sjálfu þegar skoðuð er þjóðarframleiðslan hér að við yrðum í hópi þeirra ríkja sem yrðu nettógreiðendur inn í kerfið, hvort það yrði af stærðargráðunni 5, 8, 10 eða 12 milljarðar eins og deilt hefur verið um er kannski ástæðulaust að slá neinu föstu um hér.

Síðan er fjallað um nokkur önnur atriði, virðulegur forseti, í greinargerðinni sem ég ætla tímans vegna ekki að orðlengja neitt um. Tillögunni fylgir svo kafli úr stefnuyfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þar sem kjarninn í okkar áherslum á sviði utanríkismála kemur fram. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að með því að flytja þessa stefnu okkar í alþjóðasamskiptum sem þingmál, þá erum við ekki að ætlast til þess eða að reikna með því að hún fáist hér afgreidd eða samþykkt af þorra þingmanna. Ég held hins vegar að það hafi gildi og væri ágætisfordæmi fyrir aðra að menn leggi utanríkisáherslur sínar fram með þessum hætti, geri grein fyrir þeim, rökstyðji þær, leggi þau spil á borðið, og þá er hægt að takast á um þá hluti. Ég beini því ekki síst til þeirra flokka sem stundum þykjast hafa einhvern einkarétt á því að hafa skoðanir á eða vera opnir fyrir umræðum og hugmyndum um Evrópumál, að þeir mættu kannski líta til þess fordæmis sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur þó gefið með því að leggja sína stefnu hér á borðið, ítarlega rökstudda, og menn geta þá tekist á um hana og verið henni ósammála eða sammála eftir atvikum.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og utanrmn.