Afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 13:37:45 (3822)

2004-02-04 13:37:45# 130. lþ. 56.91 fundur 286#B afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Þetta er stjfrv. sem flutt er í þeim tilgangi að eyða óvissu um mál sem mjög hefur verið rætt, bæði hér og annars staðar, og því teljum við ástæðu eins og við aðrar slíkar aðstæður til að málinu sé flýtt. Að öðru leyti eru efh.- og viðskn. ekki gefin nein fyrirmæli um það með hvaða hætti nefndin hagar störfum sínum. Þó er það venja í þinginu að þá Alþingi veitir afbrigði með þessum hætti, og ég vænti þess að það verði gert, leitist þingnefnd í framhaldinu við, nema eitthvað sérstakt mæli því í gegn, að veita slíku máli greiða för í gegnum þingið. Það eru að sjálfsögðu engin fyrirmæli af hálfu stjórnvalda eða ríkisstjórnarinnar til þingnefndarinnar í þessum efnum og engar leiðbeiningar. Nefndin er fullfær um að ákvarða það sjálf, en þetta eru skýringarnar.