Afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 13:43:12 (3826)

2004-02-04 13:43:12# 130. lþ. 56.91 fundur 286#B afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Ég tek undir það að hér er ekki um neitt nýmæli að ræða, að leitað sé afbrigða til að hraða þingmáli. Það hefur margsinnis gerst og er algjörlega í samræmi við þingsköp. Það er þingheimur sem tekur ákvörðun um slíkt. Ég tek enn fremur undir þau sjónarmið að það er mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem lýtur að því máli sem er til umræðu. Sú umræða hefur verið mikil innan þingsins. Hún er mikil utan þingsins og það er mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem fyrst.

Ég tek hins vegar ekki undir þessa persónudýrkun hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um að einhverjir einstaklingar hér ráði því að frumkvæði hafi verið tekið og vil heldur ekki taka þátt í einhverju kapphlaupi um það hvort þeir einstaklingar eða Frjálsl. hafi verið fyrstir. Þetta mál hefur verið til umræðu í þinginu, það er meginatriðið. Hæstv. ríkisstjórn hefur tekið frumkvæðið í málinu. Það liggur fyrir frv. frá hæstv. ríkisstjórn og það er mikilvægt að það fái hraða og góða og málefnalega meðferð á Alþingi sem fyrst.