Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 14:09:47 (3835)

2004-02-04 14:09:47# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kannast ekki við að hafa skipt um skoðun í þessu máli. Þegar þetta var fyrst gert opinbert sagði ég hins vegar að málið bæri að með allt öðrum hætti en það sem gerðist 2002. Ég er enn þeirrar skoðunar vegna þess að í því tilviki voru það fimm einstaklingar ásamt Búnaðarbankanum sem ætluðu að komast yfir SPRON með því að yfirbjóða stofnbréf, kaupa stofnbréf á yfirverði, og ná þannig yfirráðum yfir sjálfseignarstofnuninni, þ.e. ná 81% af eigin fé SPRON undir sig með því að kaupa einungis stofnbréfin á fimmföldu yfirverði.

Í því tilfelli sem nú er um að ræða er farið að lögum, (SigurjÞ: Er ekki tvöfalt yfirverð núna?) alla vega fljótt á litið. Ég ætla ekki að fullyrða hvað kemur út úr yfirferð eftirlitsstofnana. Nú er um það að ræða að stofnbréf eru metin samkvæmt 74. gr. og síðan er allt ferlið sýnt, líka viðskiptin sem eiga sér stað eftir að um hlutafé er að ræða í hlutafélagi.