Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 14:11:19 (3836)

2004-02-04 14:11:19# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég vil benda hæstv. viðskrh. á að stjórn SPRON stendur einhuga á bak við þessa breytingu. Nú er því ekki um neitt að ræða sem hét áður óvinveitt yfirtaka. Meiningin var að tveir þriðju stofnfjáreigenda mundu samþykkja þennan gerning þannig að þeir sem stofnuðu sparisjóðinn og standa vörð um hann mundu líka samþykkja þetta með miklum meiri hluta.

Hæstv. ráðherra sagði rétt áðan að SPRON-málið hið þriðja kæmi upp. Á hún þá við það að þessi lagasetning muni stöðva SPRON-málið annað? Á hún við það að þessi lagasetning sé sett til höfuðs þeim samningi sem gerður var milli SPRON og Kaupþings -- Búnaðarbanka hf. 23. desember sl.? Ég vil fá svör við því og eins því hvort meiningin sé að klára lagasetninguna fyrir 10. febrúar. Ég spurði hæstv. forseta að því áðan og hann kom sér undan því að svara. En ég vil fá að vita hvort störf hv. efh.- og viðskn. skuli vera svo hröð að það eigi að afgreiða þetta á fimm dögum. Það þarf ég að vita því að annars vanda ég mig við lagasetninguna og fæ til mín lögfræðinga og leita umsagna.

Varðandi mismunandi verð þá er það afskaplega einfalt. Sá sem kaupir 80% af sjálfseignarstofnuninni fær ekki nema 5% vægi. Hann þarf að ná 97,5% til að geta breytt samþykktum af því að 2,5% sem eftir eru hafa helmings vægi á við 5%. Hann fær aldrei meira en 5%. Þess vegna þarf hann sífellt að bjóða hærra og hærra verð til stofnfjáreigenda því að margir þeirra munu ekkert selja. Þeir eru ekki skyldaðir til að selja. Þetta skýrir af hverju það er mismunandi verð. Ég skil ekki að menn skuli ekki skilja þetta.