Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 14:13:30 (3837)

2004-02-04 14:13:30# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt að vona að hv. formaður efh.- og viðskn. vandi sig alltaf í störfum sínum í efh.- og viðskn. Hann sagðist ætla að vanda sig ef um það væri að ræða að þetta mál ætti ekki að fara hratt í gegn.

Hins vegar er það ekki mitt að kveða upp úr um hvenær þetta frv. verður að lögum. Á hv. Alþingi er það þingheimur sem tekur þá ákvörðun.

Þegar ég segi, eins og ég sagði áðan, að það sem nú er um að vera í sambandi við SPRON sé með allt öðrum hætti en var sumarið 2002 þá meina ég það. Ég sagði líka áðan, og hef áður sagt, að þessi atlaga --- þetta er reyndar ekki atlaga en fyrri aðferðin var atlaga --- þ.e. sú aðferð sem nú er beitt er í raun lögum samkvæmt, a.m.k. hvað varðar öll aðalatriði málsins. Við það stend ég þannig að þar erum við hv. þm. allt að því sammála.

Þegar hann talar um sjálfseignarstofnunina eins og hún sé svo lítils virði og þess vegna eðlilegt að kaupa hana á genginu 1 þá er það alls ekki svo. Það eru ákvæði um það í lögunum, fyrst og fremst um það, að á hluthafafundinum, á stofnfundi hlutafélagsins fari sjálfseignarstofnunin með atkvæðisrétt á við eign sína, á við eigið fé. Auk þess getur hún tekið ákvörðun um hversu mikið vægi hún hefur í hlutafélaginu áfram. Ef hv. þm. ætlar að nota það sem skýringu á þessu tilboði upp á 1% til sjálfseignarstofnunarinnar þá er það ekki skýring að mínu mati.