Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 14:20:09 (3842)

2004-02-04 14:20:09# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur alltaf fundist ástæða til að taka mark á yfirlýsingum ráðherra, ekki bara þessa hæstv. ráðherra heldur allra. Þeir hafa mikið af starfsfólki í kringum sig sem getur unnið mikla vinnu fyrir þá.

En hæstv. ráðherra kemur hingað upp og verður ber að því að hafa ekki hugmynd um um hvað hún er tala.

Það frv. sem ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sömdum er sex greinar en ekki 74 og það ákvæði sem hæstv. ráðherra vísaði til er þannig að það voru þau skilyrði fyrir því að bréf yrðu seld að öll stjórnin væri sammála og það væri aðlögunarhæfni til þriggja ára. Það voru engin höft á þessu, það mátti selja þessi bréf, skilyrðið var að allir stjórnarmenn væru sammála.

Það er aðeins eitt ákvæði í lögunum sem menn hafa athugasemdir við að því er varðar EES-samninginn, það er hið svokallaða 5% ákvæði um að enginn megi fara með meiri atkvæðisrétt en 5%. ESA er að skoða það. En það ákvæði hefur hæstv. ráðherra ekki áhuga á að taka út. (Forseti hringir.)

Ég vil því segja, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki vandaður málflutningur þegar hæstv. ráðherra verður ber að því að hún er ekki einu sinni með það á hreinu að hverju hún er að dylgja í fjölmiðlum.

(Forseti (JBjart): Ég vil minna hv. þingmenn á í þessu knappa ræðuformi að halda sig innan tímarammans.)