Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 14:43:21 (3845)

2004-02-04 14:43:21# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það gætti nokkurs misskilnings hjá hv. þingmanni varðandi sjálfseignarstofnunina. Í lögum segir, með leyfi forseta:

,,Sé ákveðið að breyta sparisjóði í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 73. gr. skal sparisjóðurinn gangast fyrir stofnun sjálfseignarstofnunar sem við breytinguna verður eigandi ...`` Það á sem sagt að stofna sjálfseignarstofnunina áður en breytingin á sér stað og til þess þarf að setja henni stjórn, að sjálfsögðu. Sjálfseignarstofnunin getur farið með 5% eða þá með atkvæðavægi í hlutfalli við hlutafé sitt og það vill svo til að í SPRON eru ákvæði um að hún fari með atkvæðavægi miðað við sitt hlutafé. Þegar hún selur hins vegar hlutafé sitt fær kaupandinn bara 5% fyrir öll hlutabréfin. Það er þetta ákvæði sem veldur mismunandi verði. Það er þetta ákvæði, frú forseti, sem veldur mismunandi verði, að kaupandinn skiptir á óskráðum bréfum í SPRON hf. og skráðum bréfum í Kaupþingi, KB-banka, sem eru skráð bæði á Íslandi og í Svíþjóð og eru þar af leiðandi verðmeiri. Auk þess eru kastpeningar upp á 1.000 millj. Skuldabréfin sem eru skráð á markaði gera það að verkum að þetta er betra fyrir sjálfseignarstofnunina, að fá 6 milljarða með þeim hætti. Sá sem kaupir fer bara með 5% og hann þarf að bjóða stofnfjáreigendum svo mikið að hann nái öllum nema kannski 2,5% en þeir eru ekki skyldugir til að selja. Stjórn SPRON getur ekki skyldað þá til að selja. Þetta er mjög alvarlegur misskilningur hjá hv. þingmanni.

Varðandi hagsmunagæslu mína er ég bara orðinn þreyttur á því að sitja undir svona ræðum, áburði og ýjunum og einhverju slíku. Ég hef sagt það að ég hefði sennilega meiri hagsmuni af því að sitja í stjórn SPRON áfram sem sparisjóðs og ég verð efalaust kosinn, reikna ég með, af stofnfjáreigendum og hugsanlega verð ég formaður og þá er ég búinn að græða meira á einu ári en ég græði á stofnbréfunum.