Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:21:57 (3856)

2004-02-04 15:21:57# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Kjarninn í starfsemi sparisjóðanna er sá að þeir vinna saman sem ein heild, hæstv. forseti. Þess vegna er hættan sú, ef jafnmikilvægur hlekkur verður tekinn úr keðjunni eins og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er, að aðrir sjóðir muni gefa eftir. Þessir sjóðir byggja á ákveðinni hugmyndafræði sem við viljum verja. Við viljum verja hugmyndafræðina að baki sparisjóðunum. Þeir eru mjög víða hornsteinar í samfélaginu. Við viljum verja þessa hugmyndafræði og þingið hefur lýst því yfir að vilja gera það. Hv. þm. hins vegar með sinni sveit hefur reynt að nýta sér allar glufur í lögunum til að komast fram hjá því eins og fram hefur komið. Það er því með ólíkindum að það megi ekki láta sparisjóðina í friði og tryggja ákveðna samkeppni á fjármálamarkaði.

Hv. þm. spurði: Hvað er að óttast? Einmitt svona menn, hv. þingmenn sem virðast ekki einu sinni tilbúnir til að verja hugmyndafræði sem býr að baki starfsemi sparisjóða sem hafa það að markmiði að efla starfssvæði sitt. Nei, fyrst og fremst er verið að verja hagsmuni þröngs hóps. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég fagna því að í þessari umræðu hafi hv. þm. gert sig beran að þessum sjónarmiðum á jafnskýran hátt og raun ber vitni því það er mikilvægt að vita hvar menn standa.