Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:26:06 (3858)

2004-02-04 15:26:06# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja um það frv. sem hér er til umræðu að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs styður frv. svo langt sem það nær.

Inn í þessa umræðu hefur fléttast umræða um framtíð sparisjóðanna almennt í landinu, en einnig hafa sjónir manna sérstaklega beinst að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, atburðarás og ákvörðunum sem teknar hafa verið þar á bæ. Það hefur m.a. komið fram við umræðuna, af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals, að þar ríki mikill einhugur og þingið sé hugsanlega að ganga gegn vilja stjórnarinnar.

Ég ætla að leyfa mér að segja það vera mikla einföldun að setja málið fram með þessum hætti, vegna þess að innan stjórnar SPRON hafa menn komist að niðurstöðu á mjög mismunandi forsendum. Annars vegar hefur þar verið hópur í sókn fyrir eigin hag og hins vegar hefur verið hópur í vörn fyrir almannahag. Við skulum ekki gleyma því að innan sparisjóðsins í hópi stofnfjárfesta, stofnfjárhafa, eru einstaklingar sem hafa lagt mikið kapp á að gera sem mest úr sínum hlut. Við þekkjum þessa sögu á undanförnum missirum.

Það er vert að fara örfáum orðum um sögu sparisjóðanna. Ég ætla þó ekki að taka meira en tvær til þrjár mínútur til þess. Þeir eiga sér langa og merkilega sögu, hálfrar annarrar aldar sögu. Fyrsti sparisjóðurinn var Sparisjóður búlausra í Skútustaðahreppi, stofnaður 1858. Síðan fjölgaði í hópi sparisjóða. Um þá voru smíðuð lög árið 1915 sem tóku breytingum í áranna rás, 1941, 1985, 1993, 1996, árið 2001, 2002 og síðan erum við að ræða frv. á árinu 2004.

Hvers vegna horfi ég aftur í tímann? Vegna þess að það er athyglisvert við þessi lög og greinargerðir sem fylgja þeim að þar er gegnumgangandi rauður þráður um hlutverk þessara sjóða, félagslegt mikilvægi sparisjóðanna í landinu. Þar hefur þegar á heildina er litið ekki verið ágreiningur.

Í greinargerð með stjórnarfrv. sem lagt var fram á þingi vorið 2001 segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sparisjóðir á Íslandi, líkt og annars staðar í Evrópu, eru fyrst og fremst staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Markmiðið með rekstrinum var því að stuðla að almannahag.``

[15:30]

Þetta er í greinargerð með stjfrv. á árinu 2001. Þessi félagslegu sjónarmið, þessar félagslegu áherslur, hafa jafnan verið í greinargerðum þeirra frv. sem ég vísaði til hér áðan.

Síðan hafa önnur viðhorf verið að skjóta upp kollinum í seinni tíð og minnast menn þá atburðarásarinnar sumarið 2002 þegar hópur stofnfjárfesta í SPRON vildi gera samkomulag við Búnaðarbankann sem fyrir sitt leyti hafði augastað á SPRON, vildi yfirtaka þá stofnun. Þessir aðilar fengu ekki sínu framgengt þá en hafa síðan stofnað samtök, Samtök stofnfjárfesta. Í þeim munu vera um 100 af 1.100 stofnfjárfestum eða stofnfjárhöfum í SPRON. Fulltrúar þeirra komu m.a. á fund efh.- og viðskn. þingsins nú í vikunni og þar kvað við nokkuð annan tón en í greinargerðum með þeim frv. sem ég vísaði til, því að þar var spurt m.a hver væri drifkraftur vestrænna hagkerfa. Og því var svarað að bragði að það væri hagnaðarvonin. Þetta er sú hugsun sem þar á bæ var uppi og það er athyglisvert að gaumgæfa fréttabréf frá SPRON þar sem fjallað er um atburðarás síðustu vikna.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem nefnd á vegum stjórnar SPRON hefur unnið sleitulaust að því frá síðasta aðalfundi að finna ásættanlega leið fyrir stofnfjáreigendur til að fá hærra verð fyrir stofnbréf sín en uppreiknað kaupverð, auk þess að tryggja sjálfstæði SPRON sem fjármálafyrirtækis, hefur stjórn Starfsmannasjóðsins beðið átekta varðandi frekari aðgerðir í málinu.``

Hér er því lýst yfir alveg skýrt og skorinort að unnið verði að því að finna leið til að keyra upp verðið fyrir stofnfjáreigendur á þeirra hlut. Það er ekkert verið að fela markmiðin hér. Hér er það ekki almannahagur sem er hafður að leiðarljósi. Öllum hinum félagslegu sjónarmiðum sem eru sem rauður þráður í lagasmíð um sparisjóði allar götur frá 1915 er vikið til hliðar og hagnaðarvon stofnfjáreigenda höfð að leiðarljósi. Það er í þessu ljósi sem ber að skoða samstöðuna sem myndast innan stjórnar SPRON. Þar er komin skýringin á því að ég segi að menn hafi komist að ákveðinni niðurstöðu, annars vegar í sókn fyrir eigin hag og hins vegar í vörn fyrir almannahag.

Mig langar til þess, með leyfi forseta, að vitna í yfirlýsingu eins stjórnarmanns sem send hefur verið fjölmiðlum, Árna Þórs Sigurðssonar, sem er félagi í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og stjórnarmaður í SPRON.

Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Á fundi stjórnar SPRON í dag var rætt um málefni sparisjóðsins í ljósi stjórnarfrumvarps viðskiptaráðherra um fjármálafyrirtæki. Ákveðið var að bíða með ákvarðanir í málinu en undirritaður stjórnarmaður í SPRON taldi hins vegar rétt að ákveða nú þegar að hætta við áform um hlutafélagavæðingu SPRON og lagði af því tilefni fram eftirfarandi bókun:

,,Með vísan til þess að viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp sem í raun kemur í veg fyrir löglegan samning SPRON og KB-banka og þess, að SPRON hefur ætíð ætlað sér að vinna í samræmi við lög, tel ég rétt að stjórn SPRON ákveði nú þegar að leggja til hliðar áform um að breyta SPRON í hlutafélag.````

Hér kem ég að aðkomu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að þessu máli og þeim áherslum sem hafa verið uppi í málinu af okkar hálfu og eru ekki að taka neinum breytingum núna í hugaræsingi síðustu vikna heldur byggja á stefnu sem við löngum höfum byggt á.

Ég vísaði hér í lagabreytingar vorið 2001 og síðan aftur í lagabreytingar haustið 2002. Árið 2001 voru þær breytingar gerðar á lögum sem þá hétu lög um viðskiptabanka og sparisjóði --- þeim var síðar breytt í lög um fjármálafyrirtæki --- þá voru þær breytingar gerðar á þessum lögum að heimild var sett í lögin um að breyta sparisjóðunum í hlutafélög. Við vorum þessu andvíg. Við töldum þetta ekki skynsamlega ráðstöfun og vorum þar ein á báti. En gott og vel. Það náði fram að ganga og síðan leið og beið. Það kemur fram á sumar 2002.

Þá verður hin makalausa uppákoma af hálfu stofnfjárfesta í SPRON að þeir vilja gera samning við Búnaðarbankann sem, eins og ég gat um áðan, vildi yfirtaka SPRON. Verður nú uppi mikil umræða í þjóðfélaginu að nýju. Nú skiptist þingið í tvær meginfylkingar, misstórar mjög. Annars vegar var stjórnarliðið, stjórnarmeirihlutinn og verulegur hluti stjórnarandstöðunnar og hins vegar þau sjónarmið sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði áherslu á. Og hver var munurinn á þessum tveimur stefnum?

Ríkisstjórnarflokkarnir og hluti stjórnarandstöðunnar vildu reisa girðingar inn í núverandi lög gegn því að stofnfjárhlutir væru seldir á yfirverði --- og gleymdi ég nú lögunum í sæti mínu.

Þessar breytingar voru á 70. gr. laganna sem þá hétu orðið lög um fjármálafyrirtæki. Þar var sett svokallað 5% ákvæði sem snýr að heildaratkvæðamagni í sparisjóði og hins vegar að framsali á virkum stofnfjárhlut, þ.e. hlut umfram 10%, að því einvörðungu væri heimilt að ráðstafa þeim hlut að það væri gert til uppbyggingar sparisjóðanna, sameiningar sparisjóða eða til þess að efla sparisjóði. Þetta voru þær girðingar sem stjórnarmeirihlutinn vildi setja inn í þessi lög og gerði.

Menn sáu hins vegar ekki við hinum herskáu stofnfjáreigendum í SPRON sem fóru síðan aðrar leiðir. Það gerðum við hins vegar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vegna þess að við settum fram lagafrumvarp á þessum tíma þar sem annars vegar var vikið að framsali stofnfjárhluta, að það væri óheimilt nema með --- þar gerðum við tillögu um breytingu á 22. gr. laganna. En við vildum einnig láta fella úr gildi þær lagagreinar þar sem kveðið var á um heimild til að breyta sparisjóðunum í hlutafélög, þ.e. a-hluta og b-hluta 37. gr. Sömuleiðis vildum við breyta 72. gr. laganna þar sem fjallað var um þetta efni. Þetta var aðkoma okkar að þessum málum á þessum tíma og hefði sú leið betur verið farin. Þá stæðum við ekki í þessum sporum.

Ríkisstjórnin kann að hafa það sér til málsbóta að innan úr sparisjóðasamfélaginu heyrðust þær raddir að heppilegt væri að hafa ákvæði sem heimilaði sparisjóðunum að umbylta sér í hlutafélög. Þær raddir heyri ég ekki í dag.

Hvað gerist síðan og hver hefur verið atburðarásin núna síðustu vikurnar? Eftir að það varð ljóst hvaða áform eru uppi innan stjórnar SPRON, og það varð ljóst í lok síðasta árs, í desember rétt um hátíðarnar, þá kom þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs saman og fór fram á það formlega að efh.- og viðskn. þingsins yrði kölluð saman þegar í stað. Þetta var gert fyrir 27. des. sl. (PHB: 22. des.) 22. desember mun það hafa verið gert. Nú leiðréttir mig hv. formaður nefndarinnar. (PHB: Brást vel við.) Og það var brugðist vel við, segir hv. formaður. Nefndin kom síðan saman eða reyndi að koma saman og ég ætla nú ekki að hafa frekari orð um þann vandræðagang sem fylgdi í kjölfarið því að nefndin reyndist óstarfhæf eins og við þekkjum vegna deilna um form og er það mjög miður.

Það sem við gerðum hins vegar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var að leita álits hlutaðeigandi aðila, hagsmunaaðila. Og hverjir skyldu þeir vera? Jú, það eru sveitarfélögin, það eru fulltrúar sveitarfélaga, einkum á landsbyggðinni. Hjá þeim leituðum við álits. Við leituðum álits inni í sparisjóðasamfélaginu og fórum að spyrjast fyrir um hvað menn vildu að yrði aðhafst.

Það komu fram ýmsar hugmyndir. Af okkar hálfu kom að sjálfsögðu helst til álita að setja að nýju fram þær tillögur um lagabreytingar sem við áður höfðum sett fram, höfðum sett fram haustið 2002, um bann við því að umbreyta sparisjóðum í hlutafélög. Þetta er okkar stefna og við höfum flutt um þetta þingmál.

Önnur hugmynd sem var reifuð innan þingflokksins var að setja ákveðið frestunarákvæði gagnvart þeirri lagaklásúlu í anda þess sem Frjálsl. flutti síðan hér á þingi. Niðurstaða okkar varð hins vegar sú að við skyldum á þessu stigi láta kyrrt liggja vegna þess að við mundum leggja ofurkapp á það að ná þverpólitískri samstöðu um málið því þetta væri stórt mál þar sem menn skyldu forðast að slá sig til riddara. Við höfum núna síðustu daga fengið að kynnast ýmsum afreksmönnum í þessu máli. En við töldum rétt að fara þessa leið, þ.e. hlusta á raddir sparisjóðanna, heyra sjónarmiðin innan úr SPRON, frá stjórn SPRON, frá stjórn sparisjóðanna og frá sveitarfélögunum. Og það var í þessum anda og með þetta í huga sem við vildum að efh.- og viðskn. yrði kölluð saman, þ.e. til þess að heyra þessi sjónarmið, hvort það gæti verið að þær áherslur sem voru uppi af hálfu sparisjóðanna fyrir tveimur árum eða svo kynnu að vera aðrar í dag. Það er mjög slæmt að ekki skyldi hafa getað orðið af þessum fundi fyrr en nú.

Hér stöndum við núna með þessar tillögur frá hálfu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst mjög mikilvægt að fá frumvarpið til nefndar og ítarlegrar skoðunar þar. Ég hef hér gert grein fyrir áherslum okkar í þessu máli, hvaða breytingar við vildum helst gera á lögunum. Sú afstaða er óbreytt frá því sem hún var vorið 2001 og óbreytt frá því að við lögðum fram tillögur um lagabreytingar haustið 2002. En við viljum hlusta á sjónarmið annarra og freista þess að ná pólitískri samstöðu um málið.

Um sparisjóðina almennt er það að segja og þá fundi sem þegar hafa verið haldnir að það er mjög mikilvægt að styrkja undirstöðu þeirra. Og varðandi fundina þá kom það sjónarmið fram frá fulltrúum sparisjóðanna almennt að hér væri verið að tefla upp á líf og dauða. Þeir voru mjög samstiga í málflutningi sínum og þar greini ég að sjálfsögðu SPRON-menn eða fulltrúa SPRON frá öðrum sjóðum. Það sem mér finnst vera áhyggjuefni og nokkuð sem ber að vinna að í framtíðinni að reyna að laga er sú gjá sem er orðin milli SPRON annars vegar, Reykvíkinga annars vegar, og landsbyggðarsjóðanna hins vegar. Mér finnst það vera verkefni að reyna að brúa þessa gjá.

Margt athyglisvert var sagt á þessum fundi. Fulltrúi sparisjóða á Vestfjörðum sagðist stundum spyrja sig hvort sparisjóðirnir væru eina opinbera stofnunin eftir í þeim landshluta. Ég skrifa nú ekki upp á þá söguskýringu. En það sem býr að baki þessari yfirlýsingu er merkilegt. Þarna er verið að leggja áherslu á hið félagslega mikilvægi sparisjóðanna. Þeir eru ekki í nokkurri einustu kreppu. Fyrir fáeinum árum var markaðshlutdeild sparisjóðanna á Íslandi um 14%. Nú er hún fjórðungur, 25%. Þeir standa sterkt. Við vorum minnt á það að þegar bankakreppan skall á í Noregi, Svíþjóð reyndar einnig og Kanada --- en í Noregi reyndust sparisjóðirnir miklu styrkari en viðskiptabankarnir. Þeir komust út úr kreppunni hálfu öðru ári á undan öðrum fjármálastofnunum. Það segir sína sögu.