Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:46:36 (3859)

2004-02-04 15:46:36# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég lýsti því yfir í upphafi fundar að við í Frjálsl. mundum ekki leggja neinn stein í götu þess að þetta mál sem við núna ræðum fengi fljóta og skjóta meðferð í þinginu. Ég fer ekkert í launkofa með að viðhorf okkar, þingmanna Frjálsl., er að stöðva beri frekari hlutafjárvæðingu í sparisjóðunum um sinn. Við höfum lagt fram sérstakt mál hér á hv. Alþingi sem ég mun væntanlega mæla fyrir seinna í dag, mál sem kveður á um að taka þá heimild út úr lögum í tvö ár að hægt sé að fara með sparisjóðina inn í hlutafélagsform og þar með að taka einnig úr sambandi það söluferli sem er m.a. tilefni þess máls sem við erum hér að ræða og hæstv. viðskrh. flytur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Aðeins um viðhorf okkar í Frjálsl. til þeirra mála sem snúa almennt að bankastarfsemi, hlutafélagavæðingu og einkavæðingu í landinu. Ég held að það sé rétt að geta þess, virðulegi forseti, í upphafi máls að Frjálsl. taldi, þegar verið var að einkavæða hér bankakerfið, að það ætti að gerast með dreifðri eignaraðild. Við lögðumst ekki beint gegn því að bönkunum yrði breytt í hlutafélög og þeir síðar seldir, ríkið færi út úr bankastarfseminni, heldur lögðum við sérstaka áherslu á að sú eignabreyting og rekstrarfyrirkomulagsbreyting yrði gerð með þeim takmörkunum að hlutaféð í bönkunum yrði selt með mjög dreifðri aðild. Við nefndum t.d. 3% í því sambandi og jafnframt að söluheimild á slíku hlutafé væri takmörkuð um 3--5 ár eftir að bönkunum hefði verið breytt í hlutafélag. Við töldum að þessi breyting ætti að gerast hægt en lögðumst ekki gegn henni á sínum tíma.

Þegar hlutafjárvæðingin í bönkunum og stofnunum þeirra og einkavæðing fór hins vegar fram með þeim hætti að þar urðu til sérstakar blokkir sem keyptu bankana, Búnaðarbanka og Landsbanka, og horfið var frá þessari stefnu um dreifða eignaraðild, hvað þá heldur um að það væri nokkur takmörkun á framsali þeirra hluta sem gerðu þá breytingu hægfara, og það var stefnt að því að gera þetta með því ráði að ákveðnir aðilar næðu algjörum yfirtökum í viðkomandi viðskiptastofnunum, Búnaðarbanka annars vegar og Landsbankanum hins vegar, töldum við þá stefnu mjög misráðna. Það er skoðun okkar enn þann dag í dag að á mjög rangan hátt hafi verið farið í það mál allt saman. Reynslan hefur líka sýnt að á undanförnum missirum hefur orðið mikil breyting á starfsemi bankanna sem eru farnir að taka til hendinni og vera með alls konar tilfærslur í þjóðfélagi okkar, með eign fyrirtækja og skipulagi sem ég held að mörgum Íslendingnum finnist að sé eiginlega ekki hlutverk þeirra, þeir séu komnir út fyrir þann ramma sem menn töldu að hinir venjulegu viðskiptabankar okkar ættu að halda sig innan frekar en að vera í fararbroddi fyrir eignauppskiptum í þjóðfélaginu. Sú hefur þróunin þó orðið.

Í ljósi alls þessa er ekki nema von að við hrökkvum við þegar nú stefnir til þess að stofnað verði hlutafélag um sparisjóðina sem síðan á að selja bönkunum. Þar komum við auðvitað að því máli sem hér er verið að ræða um, SPRON og yfirtöku síðan KB-banka á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem væri stefnumótun um það að leggja niður sparisjóðakerfið í landinu ef eftir gengi. Þess vegna er það algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að það sem kom upp með þeim gjörningi sem gerður var í desember og samningi við KB-banka um að sá banki eignaðist Sparisjóð Reykjavíkur er í andstöðu við þá stefnu sem við höfum viljað sjá í peningamálum og dreifðri eignaraðild hér á landi og í andstöðu við það sem við höfum talið að þyrfti að horfa til, að hér yrði ekki víðtæk samþjöppun á öllum sviðum þjóðfélagsins, samþjöppun sem síðar gæti stefnt til fákeppni. Við þekkjum mörg dæmi um það. Við þekkjum samþjöppunina í sjávarútvegi sem er á fullri ferð og hana má einnig sjá víða annars staðar í þjóðfélaginu.

Það er mjög ánægjulegt, vil ég leyfa mér að segja, að Sjálfstfl. og Samf. skyldu hafa náð saman í vinnu sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Einar Oddur Kristjánsson lögðu í til að koma í veg fyrir að slík ör samþjöppun héldi áfram með uppkaupum á sparisjóðunum í hlutafé og síðan uppkaupum þeirra og þar með niðurlagningu á sparisjóðakerfinu í landinu og hinum dreifðu þjónustustofnunum sem sparisjóðirnir eru og hafa verið fyrir landsbyggð alla í áratugi. Þeir verða það líka vonandi áfram, ef marka má þau viðhorf sem eru uppi á hv. Alþingi í dag þótt hv. þm. Pétur Blöndal hafi í þeim málum einn allt önnur viðhorf, að því er virðist, en þingheimur allur.

Það fór ekkert á milli mála, virðulegi forseti, að þegar síðast var hreyft við lögum um sparisjóðina á Alþingi, 2002, var verið að setja inn í löggjöfina varnir gegn yfirtöku á sparisjóðunum. Það beinlínis stendur í greinargerð með frv. sem mig langar að vitna í, með leyfi forseta:

,,Ákvæðum um sparisjóði er breytt til að treysta yfirtökuvarnir sparisjóða. Þannig er kveðið á um við hvaða aðstæður sparisjóðsstjórn skal heimila framsal á virkum eignarhlut.``

Þarf ég að lesa lengra til að draga það fram hver áhersla Alþingis var? Hún var sú að stöðva það að slík yfirtaka gæti átt sér stað.

Það er rangt sem kom hér fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem lét að því liggja að þingmenn Frjálsl. hefðu verið í kapphlaupi við að leggja fram frv. sem stöðvaði samrunaferli sparisjóðanna við önnur fjármálafyrirtæki. Við vorum ekki hér í kapphlaupi við nokkurn einasta mann eða nokkurn þingflokk um það. Við vorum eingöngu að fylgja eftir þeim málum okkar sem við töldum sjálfsögð og eðlileg, þeirri áherslu á stefnu okkar í Frjálsl. að koma í veg fyrir að hér héldi áfram sú öra samþjöppun sem verið hefur á svo mörgum sviðum í þjóðfélaginu, eins og ég hef komið að áður í máli mínu.

Þess vegna tók þingflokkurinn þá ákvörðun áður en þing kom saman að leggja inn frv. sem ég mun mæla fyrir hér síðar í dag um að taka úr sambandi 73.--76. gr. laganna um hlutafélagavæðingu og sölu til 1. janúar 2006, til þess að mönnum gefist ráðrúm til þess að lagfæra löggjöfina og gera hana þannig úr garði eins og ég og hinir þingmenn Frjálsl. stóðum í meiningu um að hefði verið vilji Alþingis árið 2002.

Þess vegna lögðum við þetta frestunarfrumvarp fram. Við sáum ekki að til stæði að setja undir lekann og enginn sagði við okkur í Frjálsl. eitt einasta orð um það að menn væru að vinna að þessu máli. Það eina sem við höfðum heyrt frá hæstv. viðskrh. var að hún hefði skrifað bréf og beðið um skýringar. Menn vita til hvers mun draga hinn 10. febrúar varðandi SPRON-málið. Þess vegna lögðum við þetta frv. fram en ekki í samkeppni við neinn til þess að verða fyrstir til að gera hér eitt eða neitt. Þetta var eingöngu til að koma málinu af stað inni á Alþingi ef aðrir ætluðu ekki að taka á því.

Við lýstum því líka yfir og ég lýsti því yfir sérstaklega í upphafi máls í dag að ef það mál sem hér liggur fyrir af hendi ríkisstjórnarinnar næði þeim tilgangi að stöðva það ferli sem er núna í farvatninu legðumst við alls ekki gegn því og gætum vel hugsað okkur að styðja frv. Það verður þá að ná þeim markmiðum.

Ég verð hins vegar að segja það, virðulegur forseti, að þegar ég er búinn að lesa þessar tvær greinar sem í frv. hæstv. viðskrh. eru sé ég ekki að það nái því markmiði sem við erum að leita að, því að stöðva það ferli að sparisjóðirnir verði gerðir að hlutafélögum og renni síðan inn í aðrar fjármálastofnanir í landinu og þar með verði enn á ný vegið að hinum dreifðu byggðum landsins. Það er búið að gera nóg af því að vega að dreifðum byggðum landsins með þeim aðförum sem hafa verið hér í gildi á undanförnum árum, m.a. í fiskveiðistjórnarkerfinu og öðrum samþjöppunum og einkavinavæðingu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu. Ég held að hæstv. viðskrh. verði að leggja meira af mörkum til þess að stöðva það sem hér á að stöðva heldur en það sem birtist í þessu frv.

Þess vegna vil ég benda á það, virðulegi forseti, að ef allt um þrýtur og menn ná ekki lendingu í því að fá inn í frv. lagfæringar þar sem skýrari áherslur þarf til að lagabreytingin nái þeim markmiðum sem að er stefnt held ég að mönnum væri bara best að samþykkja það frv. sem við höfum lagt hér til um frestun og gefa sér þá meiri tíma til þess að vinna málið. Að öðru leyti er frv. okkar ekki neitt kappsmál. Við viljum bara að það nái þeim tilgangi að koma í veg fyrir það að sparisjóðirnir verði allir keyptir upp á næstu vikum, mánuðum og árum af stærri viðskiptablokkum í landinu, eins og núverandi bönkum. Það er meginmál, virðulegi forseti.

Í greinargerð með frv. hæstv. viðskrh. kemur fram að athugun ESA er ekki komin langt, þ.e. athugasemdir um það hvað standist lög og reglur samkvæmt EES-samningnum. Ekki liggur heldur fyrir hvort stofnunin muni taka skýringar ráðuneytisins gildar. Þar er kannski komin enn ein áherslan á það að frv. þingmanna Frjálsl. verði notað í þeirri biðstöðu sem kann að skapast til þess að hægt verði að taka á þessu máli með fullri sæmd og í þá veru sem ég tel að vilji Alþingis hafi staðið til.

[16:00]

Það fer ekkert á milli mála hvert mikilvægi sparisjóðanna er í landinu fyrir landsbyggðina og fólkið sem þar býr, og er ekki vanþörf á að styrkja þá stöðu víða á landsbyggðinni sem fólk býr við eftir mjög óvissa framtíð um atvinnu sína, m.a. vegna endalausra kvótatilfærslna. Eru nú nýleg dæmi í því efni og voru nýlega rædd í þinginu og þarf ekki að rekja þá sögu nánar. Hv. þm. Jón Bjarnason vakti máls á þeirri umræðu, um söluna á Brimi og hinum stóru sjávarútvegsfyrirtækjum, sem leiddi vonandi í ljós að það er ekki bara í hinum smærri byggðum, hinum dreifðu byggðum Íslands, sem menn þurfa að óttast, það er líka í hinum stærri og það ætti öllum að vera orðið ljóst.

Stjórnarandstöðunni allri var þetta ljóst fyrir síðustu alþingiskosningar og benti á leiðir til breytinga, þó að þær væru ekki allar nákvæmlega eins útfærðar og menn hefðu misjafnar skoðanir á því hvernig fara ætti að því marki. En ríkisstjórnarflokkunum var það ekki ljóst. Þeir töldu að nauðsynlegt væri að keyra áfram á hinu frjálsa framsali kvótakerfisins.

Það hefur auðvitað sýnt sig að byggðin hefur veikst að mörgu leyti vegna þeirra laga og byggðin mundi enn veikjast ef svo færi fram að sparisjóðirnir rynnu inn í hina stóru banka. (Forseti hringir.) Það er brýn nauðsyn til þess, virðulegi forseti, að ...

(Forseti (SP): Forseti spyr hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Nákvæmlega fjórar mínútur og 40 sekúndur.

(Forseti (SP): Það stóð til að fresta þingfundi milli klukkan fjögur og fimm. Ef það er stutt eftir getur hv. þm. lokið ræðu sinni.)

Virðulegi forseti. Ég var á fundi með 1. forseta þingsins og þingflokksformönnum. Þar var talað um að fresta fundi klukkan 16.15. Ég veit ekki hvort starfandi forseta hafa borist þau ummæli en ég kom af þeim fundi beint í þennan ræðustól.

(Forseti (SP): Forseta er ekki kunnugt um þá tímasetningu en hv. þm. heldur þá áfram ræðu sinni.)

Takk fyrir. Það liggur algjörlega fyrir, virðulegi forseti, að landsbyggðin þarf á því að halda að hlutur hennar sé skoðaður í öllum þeim samþjöppunarmálum sem átt hafa sér stað hér á landi á undanförnum mánuðum og missirum. Ég lít svo á að það sé hlutverk okkar á hv. Alþingi, og fagna því að Sjálfstfl. skuli hafa samþykkt þann vegvísi að það væri æskilegt að taka á því að koma í veg fyrir þessa samþjöppun sem gæti annars orðið varðandi sparisjóðina. Ég fagna því einnig að hæstv. viðskrh. skuli hafa lagt fram þetta frv. og ríkisstjórnin á bak við það því að það sýnir mér að það er ákveðinn vilji til þess að hægja á því geysilega samþjöppunarferli sem verið hefur hér á landi á undanförnum árum og missirum. Menn eru sem sagt að viðurkenna að það þurfi aðeins að horfa til þess hvernig mál hafa þróast í þessu ríki, okkar landi, Íslandi, og að ekki sé hægt að láta hin hörðu viðskiptasjónarmið og hina frjálsu möguleika kvótabrasksins eða annarrar samþjöppunar í þjóðfélaginu leika algjörlega lausum hala og að það sé ekki heldur hægt varðandi sparisjóðina. Ég tek algjörlega undir það sjónarmið og fagna því að það skuli koma fram, að nú sé tími til að staldra við þegar komið er að því að þjappa sparisjóðunum undir eignarhald stærri bankastofnana.

Við í Frjálsl. fögnum því að þetta mál skuli koma fram og vonum að það verði unnið þannig í nefnd að það dugi til þess hlutverks sem því er ætlað, að stöðva frekari samþjöppun á peningavaldi í landinu með því að bankarnir kaupi sparisjóðina.

Það hefur verið minnst hér á upphaf sparisjóðanna, á stofnun þeirra og tilgang, að þeir hafi verið stofnaðir víða til þess m.a. að afla fjár til húsbygginga og til minni fyrirtækja. Það er gott að það hefur orðið hlutskipti sparisjóðanna í gegnum tíðina að halda áfram að vera bakhjarl einstakra viðskiptamanna sinna, einstaklinganna og hinna minni fyrirtækja. Ég fagna því að sparisjóðirnir skuli vera til og hafi á mörgum sviðum og oft verið sá bakhjarl sem byggðirnar hafa treyst á þegar komið hefur til þess að standa með einstaklingum, bæði heima í héraði og einstaklingum til þess að stofna til atvinnureksturs, en það hafa þeir vissulega gert og haft þar mikilvægt hlutverk og munu vonandi hafa áfram, óskertir af yfirstjórn hinna stóru blokka á peningamarkaði hér á landi.

Ég vék að því í upphafi máls míns að ég óttaðist að gengi það eftir að sparisjóðirnir yrðu yfirteknir af bankastofnunum kæmi hér samþjöppun og síðan fákeppni. Það ber vissulega að varast, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál að sinni um það frv. sem hér er lagt fram en tel að frv. það sem mér var sýnt, og ég tel ekki lengur trúnaðarmál, frá hendi hv. þingmanna Einars Odds Kristjánssonar og Lúðvíks Bergvinssonar, nái betur þeim markmiðum sem að er stefnt en frv. ráðherrans. Ég vona að hv. efh.- og viðskn. taki málið til gaumgæfilegrar skoðunar og skirrist ekki við að nota þá frv. Frjálsl. til þess að vinna tíma til að koma málunum í þann farveg ef ekki vill betur til, en varpi ekki slíku tækifæri fyrir róða eingöngu vegna þess að Frjálsl. lagði það fram.