Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 16:06:56 (3860)

2004-02-04 16:06:56# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt sem hv. þm. var að tala um í sambandi við hlutverk sparisjóðanna. Mér finnst full ástæða til þess að hafa áhyggjur af viðskiptaumhverfinu í landinu og að það hljóti að vera eftirsóknarvert að einhverjar fjármálastofnanir séu til í landinu sem starfa á öðrum grundvelli en bankarnir og aðrar fjármálastofnanir gera. Þá vísa ég til þess að það virðist vera orðinn slíkur hluti af starfsemi þessara fjármálafyrirtækja að vera í alls konar verslun með hlutabréf og aðrar eignir og eignabreytingar og annað slíkt, sem fréttastofur hafa verið duglegar að fara yfir og leyfa fólki að fylgjast með, að það hafi verið stærsta hlutverk þeirra og af því hlutverki mest áhrif.

En ég verð að segja að þó að ég fagni þeim frumvörpum sem hér hafa komið fram til þess að reyna að koma í veg fyrir að það verði af því að sparisjóðirnir í landinu bókstaflega leggist af, þá vil ég spyrja hv. þm. hvort hann hafi þá skoðun að sú eðlisbreyting sem orðið hefur eða verður með því að sparisjóðirnir geti breytt sér í hlutafélög, eins og lögin gera ráð fyrir núna, muni í raun og veru eyðileggja þessa sjóði þegar til lengri tíma er litið. Þær stjórnir sem talað er um að kjósa fyrir sjóðina núna verða auðvitað líka eins og núverandi stjórnir uppteknar af þeim fjármunum (Forseti hringir.) sem hægt er að fá fyrir sjóðina eftir að búið er að gera þá að hlutafélögum.