Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 16:11:33 (3862)

2004-02-04 16:11:33# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel reyndar og var á þeirri skoðun að Alþingi hefði ekki vandað sig nógu vel við setningu þeirra laga sem gilda um þessi efni, hvorki árið 2001, líklega var það 2002 reyndar sem lögin tóku gildi, og síðan við breytinguna sem gerð var í fyrra þegar ný lög voru sett um fjármálafyrirtæki og tóku þar með við hlutverki laganna um fjármálafyrirtæki og sparisjóði, eða ég man nú ekki hvað þau lög hétu sem giltu á undan.

Bent var á það hér í umræðum ítrekað að þessi hætta væri fyrir hendi sem nú hefur sýnt sig. Ég tel reyndar, og tek undir það með hv. þm., að það sé ekki vansalaust að fara með slíkum hraða með mál hér í gegn eins og í stefnir og vil láta það koma fram að mér finnst að það hljóti að þurfa að skoða þann möguleika að fresta málinu, hvort hann er til staðar eða hvort einhver sérstök vandkvæði séu á því að gera það þannig að Alþingi fái betri tíma til þess að fást við þetta mál og það verði ekki enn eitt slysið í vinnubrögðum í þinginu tengt þessum málefnum sparisjóðanna. Mér finnst satt að segja nóg komið og ég segi enn einu sinni: Alþingi tók þá ákvörðun að leyfa breytingu sparisjóðanna í hlutafélög. Með því er verið að gera eðlisbreytingu á sparisjóðunum sem er mikil eðlisbreyting frá þeim lögum sem giltu, þeim var snarbreytt og þar með eðli sparisjóðanna. (Forseti hringir.) Þetta þurfa menn að hafa í huga og fara yfir.