Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:18:39 (3864)

2004-02-04 17:18:39# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir mjög málefnalega ræðu og góða. Hún er greinilega vel inni í málinu eins og búast mátti við.

Ég held að við séum mjög nálægt því að vera sammála í þessu máli. Ég veit að hv. þm. hafði efasemdir um 74. gr. þegar henni var breytt árið 2002, þegar málið var síðast til umfjöllunar, en niðurstaða þingsins var að gera þá breytingu. Í raun má segja að það sé ekki óeðlilegt að stofnfjáreigandi standi ekki verr að vígi eftir að sparisjóði hefur verið breytt í hlutafélag eins og þetta ákvæði kveður á um. En þegar hv. þm. talar um að hlutur stofnfjáreiganda breytist úr 11% upp í 33% er það náttúrlega vegna ákvæðis í lögunum sem gilda í dag, um heimild til hækkunar stofnfjár. Raunin er sú að í dag er arðbært að eiga stofnfé. Áhættan er óneitanlega meiri af því að eiga hlutabréf. Þess vegna er þetta metið svona.

Ég er hins vegar sammála því að þetta mat frá óháðum aðila sem gerði það að verkum að 540 millj. kr. urðu 1.400 millj. kr., er umdeilanlegt. Mér finnst ekki ólíklegt að það verði gerð athugasemd við það af Fjármálaeftirliti vegna þess að fyrir liggur annað mat, þ.e. mat markaðarins. Það eru 3 milljarðar kr.

Varðandi það hvernig farið verður með stjórnina finnst mér nokkuð ljóst, ef þetta frv. verður að lögum, að skipað verði í þá stjórn samkvæmt nýjum lögum. Þannig eru ekki miklar líkur á að þeir sem nú eru í stjórninni verði í hinni nýju stjórn.