Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:27:16 (3868)

2004-02-04 17:27:16# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Frv. sem er til umræðu er tiltölulega einfalt að efni. Það er lagt fram til þess að skera á milli sambandsins sem er í gildandi lögum á milli stofnfjáreigenda og þeirrar sjálfseignarstofnunar sem verður til ef sparisjóður er gerður að hlutafélagi. Þeir atburðir sem orðið hafa á síðustu vikum hafa dregið það mjög skýrt fram að stofnfjáreigendur líta fyrst og fremst til eigin hagsmuna við ákvarðanatöku um fjármagn sjálfseignarstofnunarinnar. Það er ljóst í því dæmi sem varðar SPRON að verið er að gera samninga við KB-banka með þeim hætti að nota eigið fé sjálfseignarstofnunar til þess að auka virði stofnfjárbréfa stofnfjáreigenda. Það er verið að flytja verðmæti frá öðru eigin fé sjóðsins til stofnfjáreigenda. Það er það sem er verið að gera. (PHB: Nei.) Það er það sem er verið að gera, herra forseti.

Það er með ólíkindum, herra forseti, að sá maður sem hefur frumkvæði að því að úthugsa leiðir til að hlunnfara eigið fé sparisjóðsins annað en það sem er í eigu stofnfjáreigenda skuli vera maður sem situr hér á þingi og hefur staðið að þessari lagasetningu. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst það með ólíkindum. Með þessu eru menn í raun að reyna að taka sér fé sem þeir eiga ekki. Það er kjarni málsins. Það er ástæðan fyrir því að menn bregðast hart við. Mönnum líkar það ekki og það er ekki í samræmi við þau lög sem menn hafa sett. Það er ekki í samræmi við þann tilgang sem lögin þjónuðu. Það liggur ljóst fyrir hvaða hlutverk stofnfjáreigendur hafa í sparisjóðunum. Það liggur ljóst fyrir hvaða fé þeir leggja fram og hvað þeir eiga að fá á móti því. Í dæmi SPRON hafa menn verið að leita að aðferðum til að sækja sér fé umfram það. Það er með ólíkindum, herra forseti, hvað menn hafa gengið langt í því skyni.

[17:30]

Annað atriði sem skiptir mjög miklu máli í þessu er að sparisjóðirnir sem heild eru aðili á samkeppnismarkaði og það er hagur þeirra sem þar eru að kaupa út og fækka þeim sem eru í samkeppni. Það er hagur KB-banka að splundra sparisjóðunum þannig að þeir verði ekki samkeppnisaðili lengur. Ef áform þeirra ganga eftir er búið að veikja sparisjóðakeðjuna sem samkeppnisaðila á fjármagnsmarkaði. Það er alveg ljóst að ef löggjafinn lætur það viðgangast sem ætlað er, að hægt sé að bera fé á stofnfjáreigendur með því fé sem í raun á heima undir öðru eigin fé sparisjóðanna munu fleiri sparisjóðir fylgja á eftir sömu leið. Það eru menn að reyna að koma í veg fyrir og menn vilja verja þessa stöðu, m.a. til að tryggja áframhaldandi samkeppni á fjármagnsmarkaði. Það er nauðsynlegt að taka það fram, herra forseti, þannig að mönnum sé alveg ljóst í hvaða tilgangi verið er að flytja frumvarp af þessu tagi.

Ég vil aðeins fara yfir tildrög þessa máls. Ég tel að áform KB-banka og SPRON-manna séu ólögmæt. Ég tel einsýnt að Fjármálaeftirlitið muni ógilda þau áform. Ég er því á þeirri skoðun að þau muni ekki ná fram að ganga og af þeim ástæðum sé ekki nauðsynlegt að setja lög til að stöðva núverandi áform. Engu að síður er nauðsynlegt að löggjafinn taki af skarið þannig að enginn velkist í vafa um að menn ætla ekki að láta viðgangast að hægt verði að finna leiðir fram hjá lögunum til þess að brjóta þetta niður. Þess vegna er nauðsynlegt að setja skýrara ákvæði, eins og ætlað er með frv., með því að skera í sundur sambandið á milli stofnfjáreigenda annars vegar og yfirstjórnar sjálfseignarstofnunarinnar hins vegar. Eftir þá breytingu má því telja augljóst að þeir sem fara með stjórn sjálfseignarstofnunarinnar muni ekki taka ákvarðanir af því tagi sem fyrirhugað er í þeim samningum sem liggja fyrir varðandi SPRON.

Það sem mér finnst gagnrýni vert í því máli er að stofnfjáreigendum sem í dag, miðað við upplýsingar frá SPRON, eiga um 13,5% af eigin fé sjóðsins miðað við mitt ár í fyrra, er ætlað að fá þriðjung af kaupverðinu eða 33%. Þeir fá aðila til að meta þetta þannig að eigið fé upp á 4 þús. millj. sé að verðmæti 7 þús. og 400 millj. Þar meta þeir stofnfjárhlutann 1.400 millj. eða 19%, þannig að þar hækka þeir 13,5% stofnfjárhlutinn upp í 19%. Þar er verið að færa til verðmæti frá öðru eigin fé sjóðsins yfir til stofnfjáreigenda.

Í öðru lagi er komið með tilboð sem er hærra en þetta metna verð upp á 7 þús. og 400 millj. Það er 9 þús. millj. og öll hækkunin er greidd stofnfjáreigendunum þannig að þeir fá 1.600 millj. til viðbótar við þessar 1.400 millj. eða samtals 3 þús. millj. Þetta er rökstutt með vísan í ákveðna grein, í 74. gr. laganna, og rökstutt með því að þegar sú breyting var gerð þá leiði hún af sér að menn geti gert þetta til að tryggja hlut stofnfjáreigenda.

Ég held að nauðsynlegt sé að fara aðeins yfir þetta svo að því sé a.m.k. haldið til haga því að ég var einn af þeim sem stóð að því að samþykkja þetta frv. á sínum tíma og flytja þá breytingartillögu sem SPRON-menn hafa vísað til til að rökstyðja þessar reiknikúnstir sínar.

Þeir hafa sagt sem svo að við það að breyta stofnfjárbréfi yfir í hlutabréf verði stofnfjáreigendurnir verr settir og þurfi þess vegna að fá meira í sinn hlut til að verða jafnsettir og áður. (PHB: Þetta er ekki aðalástæðan.) Þetta hefur verið rökstuðningurinn. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið rökstuðningurinn og kemur m.a. fram í grein Guðmundar Haukssonar, þ.e. að menn telja að hlutabréfið sé lakari kostur en stofnfjárbréfið og þess vegna þurfi að bæta þeim það upp með því að fá meira af hlutabréfum í sinn hlut og vísað er til þeirrar breytingartillögu sem var til umræðu í þinginu fyrir rúmu ári.

Til þess að taka af allan vafa í þeim efnum vil ég vitna til nefndarálits meiri hluta efh.- og viðskn., sem dagsett er 6. des. 2002, þar sem meiri hlutinn er reyndar skipaður átta nefndarmönnum af níu.

Þar segir um þessa breytingartillögu, með leyfi forseta:

,,Eðlilegt er að tryggja eins og kostur er að stofnfjáreigendur séu jafn vel settir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Þeirri breytingu sem hér er lögð til er ætlað að ná því markmiði. Til að tryggja að sparisjóðsstjórnir gæti ekki hagsmuna stofnfjáreigenda umfram hagsmuna sjálfseignarfjár sparisjóðsins er lagt til að óháður aðili verði fenginn til að meta ákvörðun hlutafjár.``

Þarna kemur skýrt fram í nefndarálitinu að það á að tryggja að stofnfjáreigendurnir séu jafn vel settir, ekki betur settir. Það kemur líka fram að ekki eigi að ganga á annað eigið fé sjóðsins.

Í framsöguræðu þáv. formanns efh.- og viðskn. kemur fram eftirfarandi í ræðu hans um þessa breytingu, með leyfi forseta:

,,Þessi breyting gengur ekki út á það að stofnfjáreigendur eigi að eiga eitthvað meira en þeir í sjálfu sér eiga samkvæmt gildandi lögum eða eitthvað meira heldur en þeir eiga sem stofnfé í sparisjóði heldur einungis að eignin sem þeir fá sé jafngild þeirri sem þeir láta af hendi.``

Því er með engu móti hægt að fá út úr þessum skýringum á tillögunni sem þá var lögð fyrir þingið þann skilning sem fram kemur í rökstuðningi SPRON-manna fyrir reiknikúnstum þeirra. Það er ekki hægt að sækja sér rökstuðning í þessa breytingu á 74. gr. laganna fyrir því að hækka hlut stofnfjáreigenda úr 13,5% í 19% af eigin fé sjóðsins. Þess vegna segi ég að þetta eru reiknikúnstir sem ekki eiga sér stoð í lögunum. Ég tel að Fjármálaeftirlitið muni ógilda þær, svo að ég tali nú ekki um framhaldið sem er að búa til eitthvert sérstakt markaðsverð bara á þann hluta hlutabréfanna sem eru í eigu stofnfjáreigenda en ekki þau hlutabréf sem verða í eigu sjálfseignarsjóðsins.

Þetta vildi ég því nefna, herra forseti. Rökstuðningurinn fyrir því að áhættan sé meiri ef menn eiga hlutabréf í staðinn fyrir stofnbréf er út af fyrir sig athyglisverður því að fyrir tveimur árum þegar menn tóku inn í lögin ákvæði um að heimila sparisjóðunum að verða hlutafélög var það gert til þess að gera sparisjóðunum kleift að afla sér eigin fjár með sölu hlutabréfa sem þeim væri ekki mögulegt eins auðveldlega með því að selja stofnbréf. Rökstuðningurinn var sá að ef sparisjóðirnir vildu verða öflug fjármálafyrirtæki í framtíðinni yrðu þeir að verða hlutafélög til þess að geta styrkt sig og sótt sér aukið eigið fé. Í þeim rökstuðningi kom m.a. fram, eins og segir í greinargerð með því frv. sem lagt var fram á sínum tíma, með leyfi forseta:

,,Að öllu jöfnu ættu hlutabréf að vera betri fjárfestingarkostur en stofnfjárbréf litið til lengri tíma. ... Möguleikar hluthafa til að njóta góðrar ávöxtunar eru ekki síst fólgnir í hækkun á verði bréfanna.``

Menn lögðu því hlutafjárvæðinguna til vegna þess að það væri betra fyrir sparisjóðina og að hlutabréfin væru betri fjárfestingarkostur en stofnfjárbréfin. En svo þegar núna er verið að rökstyðja málið er það gert út frá því að stofnfjárbréfin séu betri kostur en hlutabréfin og hlutabréfin séu áhættumeiri og þess vegna þurfi menn að fá sérstakar bætur til að mæta þeirri áhættu annars vegar og mæta því að stofnfjárbréfin eiga sér svo góða von um arð og ávöxtun. Rökstuðningurinn eða matið á gildi hlutabréfanna í þessu hefur því á stuttum tíma algjörlega snúist við og það finnst mér mjög athyglisvert. Ég spái því að þessi áform um hlutafjárvæðingu sparisjóðanna séu meira og minna úr sögunni. Ég held að menn sjái að ekki er nauðsynlegt fyrir sparisjóðina að verða að hlutafélögum. Þeim gengur vel að afla sér aukins eigin fjár með sölu stofnfjárbréfa þannig að það er enginn vandi uppi í þeim efnum eins og ætlað var fyrir tveimur árum. Viðhorfin hafa bara breyst á ekki lengri tíma.

Herra forseti. Ég held að huga þurfi að 74. gr. m.a. út frá því að menn hafa verið að hártoga skilninginn á henni. Ég held að við þurfum að tryggja að menn ætli ekki áfram að hártoga ákvæði þeirrar greinar í því skyni að raska hlutföllunum á milli hlutafjárins annars vegar og eigin fjár sparisjóðsins hins vegar, og kannski kunni að vera þörf á því að gera breytingar á greininni þannig að ekki verði með neinu móti hægt að hártoga þessi ákvæði eins og gert hefur verið. Ég held að það þurfi að vera alveg ljóst þannig að ekki verði um það deilt að hlutur stofnfjárbréfa á ekki að breytast við það að skipta yfir í hlutafélag þannig að með þeirri breytingu sæki menn sér ekki fé úr þeim hlut sem annað eigið fé sjóðsins á í raun að fá.

Ég held líka að líta þurfi til þess sem er kannski kjarninn í starfsemi sparisjóðanna og það er dreifð eignaraðild. Dreifð eignaraðild hefur alltaf verið meginatriðið í starfsemi þeirra og ákvæði hefur verið um hana mjög lengi og er enn. Jafnvel eftir að menn heimiluðu að einstakir aðilar gætu átt vaxandi hlut og meira en jafnan, þá eru enn í gildi ákvæði um þak, um 5% atkvæðavægi hvers og eins hluthafa eða stofnfjáreiganda.

Ég held að við þurfum að skoða þessi ákvæði í lögunum til þess að ganga úr skugga um hvort þau virki ekki eins og ætlað er. Ég held að best væri að í lögunum væru ákvæði ekki bara um það ... Herra forseti. Ég heyri að það er annar fundur hérna í þingsalnum þannig að ég geri kannski bara hlé á máli mínu svo að ég trufli hann ekki.

Ég held þá áfram fyrst að þeim fundi er lokið. Ég held að langbest væri að í lögunum væri ekki aðeins ákvæði sem takmarkaði atkvæðavægi einstaks aðila í sparisjóði heldur líka ákvæði sem takmarkaði eignarhlut hvers aðila í sparisjóði. Auðvitað er hætta á því að því verði haldið fram, að sá sem á stóran hlut í sparisjóði, segjum 20% eða 25%, en fær út á það ekki nema 5% atkvæðavægi haldi því fram að með því sé verið að skerða eignarréttindi hans, að hann hafi ekki atkvæðavægi í samræmi við eignarhlut sinn. Ég skal svo sem ekkert fullyrða um hvort það eigi sér einhvern rökstuðning sem dómstólar gætu fallist á sem eiga að kveða upp úr um ágreining um slíka hluti. En til þess að fyrirbyggja slíka togstreitu væri best að hafa mjög skýr ákvæði í lögunum um það.

Í öðru lagi held ég að við eigum að skoða ákvæði tengt þessu um skylda aðila því að það skiptir miklu máli hvernig menn skilja það hverjir geta saman myndað eina heild. Ef þau ákvæði laganna eru skilin mjög rúmt getur það leitt til þess að mjög þröngur hópur getur ráðið mjög stórum hlut atkvæðavægis og jafnvel eignaraðildar í sparisjóði.

Þetta eru þau atriði sem ég held að við þurfum að skoða hvort sem við leiðum þau til lykta í þessari umræðu eða síðar. Þau hafa áhrif á framtíð eða stöðu sparisjóðanna og ekki bara á það hvort einstakir viðskiptabankar geti keypt sparisjóð upp eins og ætlað er með SPRON og gert hann að skúffufyrirtæki í einum viðskiptabankanna sem auðvitað gengur gegn megintilgangi laganna heldur þarf líka að tryggja að þau ákvæði sem lúta að dreifðri eignaraðild séu fullkomlega virk eins og ætlað er.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þessi atriði varðandi frumvarpið og máli því tengdu og læt lokið máli mínu.