Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:53:26 (3873)

2004-02-04 17:53:26# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Þetta er í annað skipti í dag sem ég þarf að bera af mér sakir þar sem menn eru að ásaka mig um gróðafíkn og um að ég sé að græða persónulega á þessu máli. Þetta er með ólíkindum. Þetta er algjörlega úr lausu loftið gripið. Menn geta haft hagsmuni af ýmsu. Og ég hef lýst því yfir áður að ef ég settist niður og reiknaði fyndi ég út að ég hefði sennilega meiri fjárhagslega hagsmuni af því að SPRON starfaði áfram sem sparisjóður og ég yrði þar í stjórn, svo ég tali nú ekki um ef ég yrði stjórnarformaður. Ég fæ þar 900 þús. kr. á ári eftir skatt, svo menn viti það. (ÖJ: Það eru ekki slæm stjórnarlaun.) Það eru ekki slæm laun, enda enginn sem á þennan sparisjóð. Þetta var ákveðið áður en ég kom þarna inn.

Svona gengur þetta alls staðar. Að menn skuli vera að núa mér þessu um nasir aftur og aftur finnst mér með ólíkindum. Ég er búinn að svara þessu einu sinni áður. Þetta finnst mér ómálefnalegt, frú forseti. Ómálefnalegt. Ég get haft á þessu pólitískan áhuga, og vissulega hag, það getur verið að ég sé að berjast fyrir hag ákveðins fjölda fólks sem hefur lagt fram peninga í sparisjóð, sem hv. þm. hefur ekki gert, og hefur átt þátt í því að byggja upp sparisjóði um allt land, sem hv. þm. hefur ekki gert. Það eru hagsmunir þess fólks sem ég gæti og að fjármunir þess verði ekki fótum troðnir og gerðir að engu.