Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:54:59 (3874)

2004-02-04 17:54:59# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, KHG (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru að vísu mjög óljósar sakir sem hv. þm. bar af sér áðan og ég viðurkenni að þær eru kannski ekki alveg mjög ljósar, þær sakir sem á mig voru bornar. Þó sagði hv. þm. að ég hefði ekki tekið þátt í uppbyggingu sparisjóðanna. Það er rangt því að ég hef verið viðskiptavinur sparisjóðanna í 30 ár og ég býst við að sparisjóðurinn sem ég hef skipt við hafi haft hag af þeim viðskiptum og að sá hagnaður hafi átt þátt í því að byggja upp eigið fé þess sjóðs. Ég vil því halda því til haga að viðskiptavinir sjóðsins eigi kannski hvað mestan þátt í því að byggja upp eigið fé þeirra. Og í lögunum er einmitt ákvæði um að það eigið fé sem þannig er uppbyggt sé ekki eign stofnfjáreigenda nema að hluta til. Og það er það sem hv. þm. Pétur Blöndal er að reyna að breyta með kúnstum sínum, að komast yfir stærri hlut þess eigin fjár en honum ber.

Mér finnst hins vegar með ólíkindum að hann telji það sakir á sig bornar að ég telji framgöngu hans í þessu máli stjórnast af því að hann vilji græða á því. Það finnst mér einkennilegt ef hv. þm. ætlar að halda því fram núna að hann sé ekki í þessum viðskiptum til þess að hagnast á þeim. Í hvaða tilgangi er þá þingmaðurinn í þessum viðskiptum? (PHB: Hv. þm. skilur það kannski ekki.) Hann heldur því fram að hann sé í þessum viðskiptum sem stjórnarmaður SPRON til þess að græða á því pólitískt. Er hann þá að styrkja hag sparisjóðsins með því að nota eigið fé sjóðsins í sínum pólitíska tilgangi? Hann verður að átta sig á því, hv. þingmaður, að með svona málflutningi held ég að hann gangi út yfir allt það sem áður hefur fram komið í máli hans, og var nú varla á það bætandi.