Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 18:24:18 (3877)

2004-02-04 18:24:18# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Frumvarpið sem við ræðum snertir framtíð sparisjóðanna í landinu. Þeir gegna gríðarlega miklu hlutverki í fjármálakerfi landsmanna, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ég fagna þeim sinnaskiptum sem fram hafa komið hjá hæstv. viðskrh., að láta sig varða málefni sparisjóðanna. Hún hefur greinilega skipt um skoðun frá því um áramót. Það er mjög gott og ber að hrósa henni fyrir það. Þá taldi hún að þetta mál varðaði ekki stjórnvöld þar sem salan væri eitthvað sem væri að gerast á markaði. Það er mikið fagnaðarefni að nú skuli hún hafa aðra skoðun á málinu.

Ég tel líka að margir aðrir stjórnarþingmenn hafi skipt um skoðun, m.a. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Hann skrifaði mikla og merka grein um málið og mátti helst skilja greinina á þann hátt að hann væri að réttlæta hið tvöfalda verð sem átti að greiða til stofnfjáreigenda, þeir áttu að fá tvöfalt verð fyrir sinn hlut eða samsvarandi því sem átti að greiða fyrir hlut sjálfseignarstofnunarinnar. Mér þótti það mjög undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að stofnfjáreigendur fengu margfalda upphæð, miðað við tilboð KB-banka og það sem þeir lögðu í stofnfé SPRON. Það er með ólíkindum að hv. þingmenn skuli reyna að réttlæta þetta tvöfalda verð.

Ég tel að þessa breytingu á viðhorfi stjórnarsinna eða þingmanna stjórnarflokkanna megi einkum rekja til harðrar andstöðu, bæði sveitarfélaga í landinu og sparisjóða allt í kringum landið. Við í Frjálsl. höfum tekið undir þessi varnaðarorð til sparisjóða og sveitarfélaga, um að varhugavert sé að fara út í þessa sölu á SPRON og rífa SPRON úr keðju sparisjóðanna.

Nú hefur komið fram að frv. hæstv. viðskrh. er ætlað að koma í veg fyrir að Kaupþing -- Búnaðarbanki geti keypt SPRON og að stofnfjáreigendur geti hagnast á kostnað sjálfseignarstofnunarinnar. Það er mjög mikilvægt.

Ég tel engu að síður að við ættum fremur að samþykkja það frv. sem við í Frjálsl. flytjum hér. Við ættum að láta það njóta forgangs í þinginu. Það frestar því að sparisjóði verði breytt í hlutafélag. Með því verður engum sparisjóði breytt í hlutafélag næstu tvö árin. Þá gæti þingið farið vel yfir löggjöf sparisjóðanna og málin ekki sett í flýtiafgreiðslu. Menn gætu vandað rækilega til lagasetningarinnar og tekið tíma í að búa til vandaða lagasetningu sem gæti farið út í þjóðfélagið. Af því gæti sprottið umræða og sátt um málin. Ég tel að þingheimur ætti að samþykkja tillögur okkar og taka góðan tíma í að fara yfir svo mikilvægt mál sem skiptir byggðirnar um allt land miklu máli.

En þó að sparisjóðirnir séu mikilvægar stofnanir á landsbyggðinni þá tel ég að þeir séu einnig mjög mikilvægir á Reykjavíkursvæðinu. Þeir eru ákveðinn valkostur fyrir minni fyrirtæki og einstaklinga. Ég er sannfærður um að við það að sparisjóðunum verði kippt út af markaðnum muni þrengjast um hag og bankakjör sem minni fyrirtæki og einstaklingar njóta. Ég tel að við eigum ekki að vanmeta það. Við höfum séð að stærri fyrirtæki hafa notið þess að fá lægri vexti. Þau hafa haft aðgang að lánsfé í útlöndum og þess vegna notið samkeppni við erlent lánsfé. Þess vegna tel ég að við verðum að huga sérstaklega vel að kjörum einstaklinga og minni fyrirtækja. Sparisjóðirnir hafa gegnt því hlutverki og þjónað einstaklingum og minni fyrirtækjum ákaflega vel. Ég tel ekkert liggja á að koma á enn meiri fákeppni á þessum bankamarkaði.

Við höfum horft á gríðarlegar sameiningar og breytingar á bankamarkaði á síðustu árum án þess að einstaklingar hafi notið þeirra. Við höfum nýleg dæmi um að þjónustugjöld bankanna eru með þeim hærri á Norðurlöndum ef marka má kannanir Neytendasamtakanna. Ekki ætla ég að draga þær í efa. Auk þess er vaxtamunur mikill.

Síðasta ár var mjög viðburðaríkt í sögu bankanna. Búnaðarbankinn og Landsbankinn voru einkavæddir, eða réttara sagt afhentir. Sjálfstfl., og þá sérstaklega hæstv. forsrh., hafði lofað að þeir yrðu seldir í dreifðri eignaraðild. Öllu var síðan snúið á hvolf. Þá var talað mikið um mikilvægi svokallaðra kjölfestufjárfesta. Allt tal um dreifða eignaraðild var gleymt. Ég tel að við eigum ekki að fækka sparisjóðunum og koma þeim inn í þessar samstæður. Ég held að við ættum að gefa þessu tíma, tvö ár, og fara síðan yfir málið og vanda til löggjafarinnar.

Ríkisbankarnir eru mjög stórir miðað við stærð þjóðarinnar. Aðalrökin fyrir dreifðri eignaraðild að bönkum er að hugsanlega gæti einn sterkur fjármagnseigandi komist yfir banka, takmarkað aðgengi annarra athafnamanna að fjármagni og notað aðstöðuna til að komast yfir fyrirtæki.

Við höfum heyrt gagnrýni af þessu tagi, að menn hafi notað aðstöðu sína, t.d. með Landsbankann, og komist yfir Eimskip með þessum hætti. Við höfum heyrt að bankarnir hafi verið notaðir með þeim hætti sem varað var við og það hafi verið afleiðing þess að menn fóru ekki eftir því sem þeir lofuðu, þ.e. dreifðu eignaraðild. Þeir grófu upp eitthvert orð sem heitir ,,kjölfestufjárfestir`` í bönkunum.

Háværar raddir, miklar áhyggjuraddir, hafa heyrst hjá hæstv. forsrh. um fákeppni og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Við höfum tekið undir það í Frjálsl. að fara að skoða þau mál en ég tel að menn ættu ekki að gleyma fjármálaheiminum og hugsa heldur til þess að með því að fara þá vegferð sem stefndi í með sameiningu KB-banka og SPRON þá hefði orðið enn meiri samþjöppun. Við í Frjálsl. teljum að við eigum að staldra við, bíða með málið um stund, í tvö ár, og gefa okkur góðan tíma til að fara í vandaða umfjöllun um fjármálamarkaðinn.