Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:34:06 (3884)

2004-02-05 10:34:06# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. ,,Háskólinn er ekki blankur.`` Svo mæltist nýjum menntmrh. í viðtali við Fréttablaðið í janúar sl. Þetta var merkileg yfirlýsing í ljósi veruleikans sem Háskóli Íslands býr við, þjóðskólinn sjálfur. Staðreyndin er sú að háskólinn þarf að óbreyttu annaðhvort að vísa um 900 nýnemum frá námi næsta haust eða taka upp harkalegar fjöldatakmarkanir. Það er hastarlegur heimanmundur fyrir nýjan ráðherra.

Jú, háskólinn er blankur, hvað sem líður orðum hæstv. ráðherra. Stjórnvöld hafa ekki sinnt ítrekuðum óskum háskólans um auknar greiðslur í takt við fjölgun nemenda. Kennslusamningurinn fyrir árið 2004 breytir þar engu um. Hann hafði hvorki áhrif á fjárveitingu þessa árs né á hámark fjölda virkra nemenda sem nú eru 5.200. Háskólinn spáir að fjöldi virkra nemenda verði að óbreyttu 5.750 haustið 2004 og aukningin svari til um það bil 900 skráðra nýnema.

Háskólinn og háskólastigið allt býr við allt of lág fjárframlög, og skortur á skýrri stefnumörkun bætir ekki stöðuna. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD frá árinu 2003 kemur fram að opinber fjárframlög til háskólastigsins á Íslandi voru einungis um 0,8% af landsframleiðslu á meðan annars staðar á Norðurlöndunum var varið á bilinu 1,2--1,7% til háskólastigsins sem er allt að tvöfalt hærra. Ef íslensk stjórnvöld hefðu svipað hlutfall landsframleiðslu sinnar og aðrar Norðurlandaþjóðir fengi háskólastigið um 4--8 milljörðum kr. meira á ári en það gerir nú. Bilið verður ekki leyst með því að velta fjárhagsvanda skólans yfir á nemendur. Háskólinn er hornreka í menntastefnu Sjálfstfl. Því ætlar Samf. að breyta.

Það var því miður eitt fyrsta verk hæstv. ráðherra að opna á skólagjöld án nokkurra fyrirvara eða skýringa í viðtali við Fréttablaðið. Hún verður að svara því svart á hvítu hvort stefnan sé að leysa vanda Háskóla Íslands í auknum mæli með gjaldtöku af nemendum eða með fjöldatakmörkunum eins og nú blasir við skólanum.

Samf. svarar þessu skýrt. Við viljum ekki taka upp skólagjöld í grunnnámi eða fjöldatakmarkanir til að leysa vanda Háskóla Íslands. Samf. vill þvert á móti forgangsraða í þágu menntunar og auka verulega framlög til háskólastigsins alls.

Það er ekki farsælt þegar hæstv. ráðherra opnar á skólagjöld án þess að skýra hvaða skólastefna býr að baki. Er það til að gera skólann betri með því að auka gagnkvæmar kröfur nemenda og skólans með gjaldtöku? Er það til að ýta undir hraða nemenda í námi eða er stefna Sjálfstfl. sú að fjármagna skólann með gjaldtöku í ljósi lágra framlaga hins opinbera? Þessum spurningum um tilgang og markmið gjaldtöku verður að svara skýrt.

Háskóli Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Sérstaða hans felst í því að hann er rannsóknarháskóli á heimsmælikvarða. Á honum hvílir ekki aðeins sú skylda að halda úti kennslu í hinum ólíkustu fögum, heldur líka umfangsmiklum rannsóknum. Á nokkrum árum hefur átt sér stað hrein bylting í bæði meistara- og doktorsnámi við skólann. Nemendafjöldi í framhaldsnámi hefur tólffaldast, úr 100 í 1.204. Þessari glæsilegu þróun verður að mæta með auknum fjárframlögum, en Sjálfstfl. mætir honum með fjársvelti.

Norrænir rannsóknarháskólar sem eru samanburðarhæfir við Háskóla Íslands hvíla á þremur stoðum jafngildum, framlögum til kennslu, framlögum til rannsókna og sértekjum til rannsókna frá fyrirtækjum, sjóðum og stofnunum í samfélaginu. Í norrænu skólunum kemur ein króna frá ríkinu til rannsókna á móti hverri krónu til kennslu. Hér koma einungis 47 aurar á móti hverri krónu og munurinn er hróplegur. Þróunin hér er öfug við það sem hún ætti að vera þar sem framlög til rannsókna hafa staðið í stað á meðan nemendum fjölgar. Hlutfallið versnar.

Við vanda háskólans verður að bregðast og það hratt og undanbragðalaust. Fjárhagsvandinn og vanhugsuð viðbrögð við honum mega aldrei verða til þess að skerða jafnrétti til náms eða þyngja byrðar námsmanna. Nóg er nú samt. Í þessu ljósi beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:

1. Ætlar hæstv. ráðherra að sitja aðgerðalaus gagnvart fjárhagsvanda Háskóla Íslands eða til hvaða ráða hyggst hún grípa?

2. Er það virkilega möguleiki í augum ráðherrans að fjöldatakmarkanir verði teknar upp við deildir háskólans til að mæta fjárhagsvanda skólans?

3. Er það stefna nýs menntmrh. að Háskóli Íslands fái heimild til innheimtu skólagjalda líkt og sjálfseignarskólarnir hafa?