Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:55:08 (3891)

2004-02-05 10:55:08# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar óska hæstv. ráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, alls góðs og farsældar í starfi menntmrh.

Staðreyndin varðandi menntamálin er sú að stefnuleysi ríkir í menntamálum af hálfu núv. ríkisstjórnar, a.m.k. er keyrð önnur stefna en boðuð er.

Í grein sem rektor Háskólans á Akureyri skrifaði í Morgunblaðið 31. janúar sl. segir, með leyfi forseta:

,,Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er ekki fjallað um skólagjöld og athygli vekur að þar er nánast eingöngu fjallað um menntamál í samhengi við jafnrétti til náms. Stjórnvöld hafa hins vegar í nokkur ár heimilað einkaháskólum, Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst, að innheimta skólagjöld en ríkisháskólar hafa ekki samsvarandi heimild.``

Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingunni er ekki kveðið á um skólagjöld í þessum skólum en í framkvæmd er ekki aðeins verið að heimila eða horfa í gegnum fingur sér við að heimila ákveðnum skólum að taka skólagjöld, heldur er líka verið að þrýsta á ríkisháskólana að taka skólagjöld. Þetta er fullkomin þverstæða og sýnir það stefnuleysi sem hér er á ferð.

Það er því rangt að rektorar ríkisháskólanna hafi farið fram á skólagjöld. Þvert á móti hafa þeir bent á þessa þverstæðu í stefnunni og hún náttúrlega gengur ekki upp. Það er svo einfalt.

Virðulegi forseti. Fram á síðustu ár hefur verið sátt um að aðgengi til náms skyldi vera jafnt og að allir gætu sótt nám í háskólum. (Forseti hringir.) Við eigum að gleðjast yfir auknum fjölda nemenda í háskólunum en ekki vera að lýsa því sem vandræðum.