Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:59:46 (3893)

2004-02-05 10:59:46# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason staðfesti það sem fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna Samf. í umræðunni og fleiri hv. þingmanna um stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í menntamálum. Hér erum við hins vegar að ræða um vanda Háskóla Íslands og óþarfi að drepa málinu á dreif með slíku tali um menntakerfið í heild sinni þó að ýmsir punktar í ræðu hv. þingmanns hafi vakið athygli og séu umræðuverðir.

Það sama má segja um ræður hv. þingmanna Sjálfstfl. ásamt hæstv. menntmrh. Það er augljóst mál að þar er ekki áhugi fyrir því að ræða sérstaklega um fjárhagsvanda Háskóla Íslands, heldur er farið með talnagusur eftir einhverjum minnisblöðum einhverra sérfræðinga í menntmrn. þar sem bornar eru saman tölur þvers og kruss og út og suður og enginn botnar neitt í neinu. (Gripið fram í.) Við erum að sjálfsögðu að fjalla um vanda Háskóla Íslands og vandinn er klár. Hann er sá að Háskóli Íslands hefur ekki fengið greitt með öllum þeim nemendum sem þar hafa stundað nám.

Það er einnig ljóst að skortur er á fjármagni vegna rannsókna. Það er ljóst að það er fjárskortur í Háskóla Íslands. Þetta lá allt saman fyrir þegar fjárlög fyrir árið 2004 voru samþykkt. Þetta er ekkert nýtt. Það er hins vegar nauðsynlegt að hvetja hæstv. menntmrh. til að fara nákvæmlega yfir þetta mál, og hæstv. menntmrh. má vita það að hún á bandamenn í Samf. við að bæta stöðu Háskóla Íslands. Þegar hæstv. menntmrh. hefur kynnt sér málið trúi ég því og treysti að það verði tekið á því og að við fáum á haustdögum væna upphæð í fjáraukalögum til að mæta þessum mikla vanda. Vaxtarverkirnir, eins og hæstv. fyrrv. menntmrh. kallaði ástandið, eru til staðar og það á að mæta þeim með því að leysa vandann en ekki með því að auka hann.