Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:01:59 (3894)

2004-02-05 11:01:59# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:01]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér á hinu háa Alþingi má finna fjölmarga stjórnmálamenn sem telja vænlegt til vinsælda að leggja fram kvartanir fyrir hönd opinberra stofnana vegna fjárhagsörðugleika þeirra. Slíkar uppákomur eru orðnar að reglulegum viðburðum í þinginu. Í síðustu viku var rætt um fjárhagsleg málefni Landspítalans -- háskólasjúkrahúss og nú er það háskólinn.

Mér er ekki kunnugt um neina ríkisstofnun sem ekki vill fá hærri fjárframlög á fjárlögum til að standa undir starfsemi sinni og við vitum að flestar stofnanir gera á ári hverju kröfur um stærri sneið af kökunni en þær fá. Þingmenn ákveðinna stjórnmálaflokka virðast alltaf vera tilbúnir til þess að taka undir slíkar kröfur.

Menn verða að hafa það í huga að krafan um aukin framlög til stofnana í ríkiskerfinu felur í raun í sér kröfu um skattahækkanir. Ef það á að verða við þeim kröfum sem gerðar eru af hálfu málshefjanda er ljóst að einhvers staðar verður að finna peningana og þar sem þeir vaxa ekki á trjánum er nærtækast að snúa sér að skattgreiðendum, senda þeim reikninginn og krefja þá um stærri hluta launa sinna til ríkisins til að standa undir þessum kröfum. Ég er ekki talsmaður slíkra hugmynda.

Þegar skoðuð er sú aukning sem orðið hefur á síðustu árum á fjárframlögum til menntamála, þar á meðal til Háskóla Íslands, er ótrúlegt að menn skuli leyfa sér að tala um aðgerðaleysi menntmrh. þegar kemur að málaflokknum. Það er einnig umhugsunarvert að hér sé rætt um fjárhagsvanda Háskóla Íslands þegar það liggur fyrir að á tímabilinu 2000--2004 hafa framlög til kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands aukist um 33,8%. Svo leyfa menn sér að tala um fjárhagsvanda og aðgerðaleysi.

Háskóli Íslands þarf, eins og aðrar opinberar stofnanir, að halda sig innan fjárlaga og sníða sér stakk eftir vexti. Telji háskólinn að þau fjárframlög sem skólanum eru veitt á fjárlögum, og aukist hafa ár frá ári, dugi ekki til að veita þá þjónustu sem yfirmenn skólans vilja veita verður skólinn að leita nýrra leiða til fjármögnunar á rekstri sínum, annarra en þeirra að óska endalaust eftir auknum fjárframlögum úr vösum skattgreiðenda.