Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:08:42 (3897)

2004-02-05 11:08:42# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna beiðni Alþingis um skýrslu sem hv. þm. Mörður Árnason bar upp og var leyfð. Í umræddri beiðni var óskað eftir skýrslu um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands. Þegar skýrslubeiðnin kom frá Alþingi fól ráðuneytið skrifstofu Ferðamálaráðs þegar að vinna að undirbúningi skýrslunnar. Eftir að vinna hófst var ljóst að hún væri mun umfangsmeiri og kostnaðarsamari en í fyrstu var talið. Í ljósi þess að hvalveiðar í vísindaskyni hófust seint á síðasta ári er það mat þeirra sem fóru yfir málið að ekki væri líklegt að sú viðamikla könnun sem óskað var eftir gæfi rétta mynd nema hún næði til lengri tíma og til mun stærri hóps en mögulegt væri á þeim takmarkaða tíma sem hefur gefist.

Þá var skoðaður sá möguleiki að nýta þær kannanir sem þegar hafa verið gerðar á þessu sviði en þær reyndust ekki tryggja þær upplýsingar sem óskað var eftir í skýrslubeiðninni. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að sú viðamikla könnun sem farið er fram á í beiðninni gæfi ekki rétta mynd ef hún væri gerð núna. Ég taldi því ástæðu til þess að gera Alþingi grein fyrir því hér fremur en að senda inn skýrslu sem ekki svaraði nema hluta af því sem farið var fram á. Ráðuneytið mun fela Ferðamálaráði að halda úti rannsóknum á einstökum þáttum sem hafa áhrif á ferðamennsku í samræmi við skýrslubeiðnina, þar á meðal áhrif vísindaveiða á hvölum, og skila inn skýrslu um það til ráðuneytisins innan þeirra marka sem fært er talið og á þeim tíma sem sérfræðingar ráðuneytisins telja að gefi sem réttasta mynd af málinu.

Að lokum vil ég geta þess að ráðuneytið mun leitast við að veita þeim sem stunda hvalaskoðun, sem hefur verið mikill þáttur í þessari umræðu allri vegna markaðssetningar og kynningarmála, allan þann stuðning sem fært er.

Ég þakka, hæstv. forseti, fyrir það tækifæri sem ég fæ hér til að gera grein fyrir þessu.