Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:13:01 (3899)

2004-02-05 11:13:01# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að upplýsa í upphafi þingfundar um skýrslubeiðni okkar hv. samfylkingarþingmanna. Ég vil taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni að það er mjög mikilvægt að fá að vita hvaða áhrif vísindaveiðarnar á hval hafa á ferðaþjónustuna. Það gæti verið mun kostnaðarsamara að halda áfram veiðunum en að taka saman skýrsluna, við vitum það ekki fyrr en búið er að fara í þessa vinnu, fara í þessa úttekt sem við biðjum um í skýrslunni.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að starfsmenn í ferðaþjónustu, m.a. í Þýskalandi, hafa lýst því yfir á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs að þeir telja að vísindaveiðar á hval skaði verulega markað okkar í Þýskalandi eða muni gera það, við vitum það ekki. Sömuleiðis hafa aðilar sem stunda ferðaþjónustu í Mývatnssveit líka áhyggjur af þessu vegna hvalaskoðunarinnar frá Húsavík sem gæti verið í húfi. Við vitum að okkar menn í Bandaríkjunum hafa líka verulegar áhyggjur af þessum áframhaldandi hvalveiðum og svona væri lengi hægt að telja saman. Við vitum ekki hvaða áhrif veiðarnar hafa og hvaða áhrif þær munu hafa á þessa mikilvægu atvinnugrein. Þess vegna er mjög mikilvægt að fara í þessa vinnu þó það taki einhvern tíma, það verður þá að hafa það. En það verða að vera komnar niðurstöður um þetta mál áður en menn ákveða að halda áfram vísindaveiðum á hval því að mjög blómleg og vaxandi atvinnugrein, ferðamennskan, er í húfi, ef þetta hefur veruleg áhrif á markaði okkar í ferðaþjónustu.