Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:17:03 (3901)

2004-02-05 11:17:03# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir viðbrögðin við greinargerð minni um störf þingsins vegna skýrslubeiðni.

En vegna þess sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Jóhanni Ársælssyni, vil ég vekja athygli á því að skýrslubeiðnin snerist um áhrifin af þeim vísindaveiðum sem hófust á síðasta ári. Það er því út af fyrir sig ekki langur aðdragandi sem við höfum haft til þess að finna út þau áhrif almennt.

Það er alveg ljóst að um hvalveiðar eru skiptar skoðanir, en það er líka alveg ljóst að innan ferðaþjónustunnar liggur fyrir að menn vildu helst vera lausir við hugsanleg áhrif hvalveiða á ferðaþjónustuna. Við þurfum hins vegar að horfa á þetta í heild sinni. Ég tel gagnlegt að meta þetta og það mun samgrn. að sjálfsögðu gera í góðu samstarfi við skrifstofu Ferðamálaráðs því við þurfum að þekkja markaðinn sem Íslendingar vinna á, bæði hvað þetta varðar og annað. Það höfum við verið að gera í því mikla markaðsstarfi sem við Íslendingar höfum unnið hvað varðar ferðaþjónustuna á vegum ráðuneytis, Ferðamálaráðs, í samstarfi við greinina og það er að skila sér með stóraukningu í fjölda ferðamanna til landsins og er hægt að lesa um það á vefmiðlum, m.a. í dag.