Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 21:06:29 (3909)

2004-02-05 21:06:29# 130. lþ. 58.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, Frsm. minni hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem er að finna á þskj. 846, frá minni hluta efh.- og viðskn.

Ég vil rétt aðeins byrja á því að minna hv. þingmenn á hugmyndina um réttarríkið. Upp úr frönsku stjórnarbyltingunni þróuðust hugmyndir manna um réttarríkið og þrískiptingu valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þannig skyldi borgarinn verndaður fyrir ofríki ríkisins. Ef ágreiningur reis um framkvæmd laga skyldu dómstólar skera úr um hann.

Hinn 21. desember 2003 skrifuðu stjórnir SPRON og Kaupþings -- Búnaðarbanka hf. undir viljayfirlýsingu um eignasamstarf með eðlilegum fyrirvörum og var tilkynnt um hana 22. desember til íslensku og sænsku kauphallanna í samræmi við reglur. Hinn 22. janúar 2004 var undirritaður samningur á milli Kaupþings -- Búnaðarbanka hf. og sjálfseignarstofnunarinnar SPRON-sjóðsins ses. um kaup bankans á öllum þeim hlutum í SPRON hf. sem SPRON-sjóðurinn ses. yrði eigandi að gengi fyrirhuguð breyting á SPRON í hlutafélag eftir. Tilkynnt var um þennan samning 23. janúar til beggja kauphallanna.

Í 1. umr. um frumvarpið sem efnahags- og viðskiptanefnd hafði til umfjöllunar kom ítrekað fram hjá ræðumönnum að frumvarpinu væri stefnt gegn þessum samningum. Sama kom fram hjá viðskiptaráðherra í viðtali í fréttum Ríkissjónvarpsins 4. febrúar. Það ótrúlega er að gerast að Alþingi Íslendinga ætlar að setja sérstök lög til höfuðs einstökum löglega gerðum samningum milli einkaaðila. Þetta er alvarlegt brot á réttarríkinu, herra forseti. Það er dómstóla og eftirlitsstofnana að útkljá ágreining um lögmæti gerninga en ekki löggjafarsamkundunnar. Það gengur ekki að setja svona lög frekar en að setja t.d. lög um að bannað sé að keyra yfir gatnamót á grænu ljósi --- í fyrra --- að viðlögðum sektum, þegar menn töldu sig fara að lögum. Slík lagaframkvæmd grefur undan tiltrú manna á réttarríkinu.

Í nefndinni var reynt að fá álit sérfræðinga í lögum á þessum þætti frumvarpsins en enginn fékkst til að gefa álit á þeim skamma tíma sem meiri hluti nefndarinnar gaf til umræðna um málið. Þess vegna liggur ekki fyrir hvort samþykkt frumvarpsins muni leiða til skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð vegna ógildingar samninga. Þá gafst enginn tími til að leita umsagna eins og venja er til, herra forseti, þegar vandað er til lagasetningar.

Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum --- og það stefnir allt í það, reyndar með ákveðnum breytingum sem ekki breyta grundvallaratriði --- stendur stjórn SPRON frammi fyrir tveimur kostum. Í fyrsta lagi getur hún hætt við fyrirhugaða hlutafélagsvæðingu. Þá verður hún og stjórn sjálfseignarstofnunarinnar SPRON ses. að rifta gerðum samningum við KB-banka hf. og getur við það bakað sér og sjálfseignarstofnuninni skaðabótaábyrgð, jafnvel þó að hún beri fyrir sig breytt lagaumhverfi. Það er í rauninni alveg með ólíkindum, herra forseti, að menn skuli þurfa að rifta gerðum samningum vegna þess að lögum er breytt. Stofnfjáreigendur tapa því sem þeir hefðu mátt vænta af samningunum. Spurning er hvort stjórn SPRON verði einnig skaðabótaskyld gagnvart þeim. Þessa ákvörðun verður að tilkynna KB-banka og hann verður að tilkynna hana áfram til íslensku og sænsku kauphallanna og geta tilefnis, sem er breytt lagaumhverfi sem ógildir gerða löglega samninga. Geta nú hv. þm. hugleitt hvort það muni efla mikið tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi sem góðu lagaumhverfi.

Í öðru lagi getur stjórn SPRON haldið fyrirhugaðri hlutafélagsvæðingu til streitu. Þá lendir hún í lagaóvissu. Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar verður ekki kosin aftur eins og fyrirhugað var því að fulltrúaráðið er ekki lengur til. Þá er spurningin hvort núverandi stjórn sjálfseignarstofnunarinnar, sem búið er að skipa og átti að endurkjósa þegar fulltrúaráðið væri til, verði áfram við stjórn og sitji út kjörtímabil sitt sem er venjulega tvö ár. Líklega munu valdhafar túlka stöðuna sér í hag og ný stjórn taka við sem aldrei hefur haft neitt með sparisjóðinn að gera. Aldrei. Þetta er eitthvert fólk sem tveir ráðherrar tilnefna og borgarstjórn Reykjavíkur, einhverjir opinberir starfsmenn væntanlega.

Þá koma upp tveir kostir: Ný stjórn viðurkennir samning fyrri stjórnar við KB-banka. Við það missir hún 80% völd yfir SPRON hf., sem hún ella hefur, og stendur eingöngu í úthlutunum styrkja. Þá munu allir samningar ganga eftir, SPRON hf. verður dótturfyrirtæki KB-banka og framtíð hans tryggð eins og að var stefnt, stofnfjáreigendur sem vilja selja stofnfé sitt og sjálfseignarstofnunin getur úthlutað arði af 6 milljörðum kr., stærsta sjóði til styrkveitinga sem verður til. En þetta er ekki vilji ráðherra eða samtaka sparisjóða enda lægi þá ekki á samþykkt frumvarpsins. Þetta er því mjög ólíkleg niðurstaða. Væntanlega mun ríkisvaldið beita ofríki sínu og láta stjórnina rifta samningunum.

Hinn kosturinn er að ný stjórn rifti samningi fyrri stjórnar við KB-banka eða ógildi hann. Á því eru yfirgnæfandi líkur, enda yfirlýstur vilji ráðherra og meiri hluta þingmanna. Við það bakar hún sjálfseignarstofnuninni hugsanlega skaðabótaábyrgð gagnvart KB-banka en einnig gagnvart stofnfjáreigendum. Hún ræður þá 80% í SPRON hf. og getur gert við sparisjóðinn það sem hana lystir. Hún getur breytt samþykktum og gert hvað sem henni dettur í hug. Hún fær 80% af arði SPRON hf. sem hún ákveður sjálf en hefur miklu minni tekjur en ella vegna þess að eigið fé SPRON er einungis 4 milljarðar kr. og hagnaður að jafnaði einungis 500 millj. kr., stundum að vísu meiri, og ekki væri skynsamlegt að úthluta honum öllum í einu. Stofnfjáreigendur eiga þá hlutabréf sem eru nánast verðlaus. Það mun enginn kaupa hlutabréf í fyrirtæki þar sem einn aðili fer með 80%.

[21:15]

Þeir fá mjög lélegan arð, þeir fá bara 20% af úthlutuðum arði í staðinn fyrir að nú fá þeir allan arðinn. Það er jafnvel hugsanlegt að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar kjósi alla stjórnina yfir SPRON hf., eitthvert fólk sem aldrei hefur komið nálægt sparisjóðnum fær allt í einu gífurleg völd án þess að eiga krónu í fyrirtækinu.

Þar sem seinni kosturinn, b, er mjög líklegur getur stjórn SPRON ekki valið leið 2 og skaðað stofnfjáreigendur með þeim hætti og látið sparisjóðinn í hendur einhverra sem tilnefndir eru af opinberum aðilum. Hún hlýtur því að velja leið 1 þrátt fyrir allar hætturnar sem því fylgja. Hugsanlega getur stjórn SPRON beint hugsanlegu tapi sínu að ríkissjóði. Frumvarpið hefur þegar valdið miklum óróa á meðal starfsmanna og viðskiptamanna SPRON sem sparisjóðurinn tapar á.

Herra forseti. Einstaka sinnum kemur upp neyðarástand svo að beita þarf lögum afturvirkt. Ef afturvirknin veldur fjártjóni er skylt að bæta það. Slíkt neyðarástand kemur ekki upp vegna samninganna á milli SPRON og KB-banka. Það kom fram á fundi nefndarinnar að SPRON mun draga sig út úr öllu samstarfi sparisjóða eftir þá reynslu að fjármunir hans hafa verið notaðir í áróðri gegn honum. Þá úrsögn verður ekki hægt að hindra. Það hvort lögin verða samþykkt og samningurinn gengur eftir eða ekki breytir engu. Á fundi nefndarinnar með fulltrúum sparisjóða og sveitarfélaga 3. febrúar sl. kom fram að sparisjóðamenn óttast ekki endilega brotthvarf SPRON úr samstarfinu. Þeir segjast munu ráða vel við það en óttast að stofnfjáreigendur annarra stórra sparisjóða fylgi í kjölfarið og þannig hrynji sparisjóðakerfið. Þar sem 2/3 hluta stofnfjáreigenda þarf til að breyta sparisjóði í hlutafélag má orða þetta svo að sparisjóðamenn óttist stofnfjáreigendur sína, því annars þyrftu þeir ekki að óttast neitt. Til að koma í veg fyrir þessi áhrif er nægilegt að hindra aðra sparisjóði í að feta í fótspor SPRON. Slík lagasetning mundi varla skapa skaðabótaskyldu en einhverjir kynnu að halda því fram að jafnræðis væri ekki gætt. Fyrir því er þó fjöldi fordæma, t.d. við breytingar á skatta- og tollalögum. Stundum hafa tollar verið hækkaðir rétt eftir að einn hafði flutt inn bíl og annar átti eftir að flytja inn bíl. Og það þykir allt í lagi. Um þetta er gerð tillaga í sérstöku þingskjali. Þessi lausn kemur í veg fyrir meint hrun sparisjóðakerfisins, veldur ekki skaðabótaskyldu, veikir ekki trú manna á réttarríkinu og varðveitir góðan orðstír íslensks atvinnulífs í augum erlendra fjárfesta.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa brtt. sem er á þskj. 847:

,,Við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Við 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 2. gr. taka þó ekki til sjálfseignarstofnana sem stofnaðar hafa verið fyrir gildistöku laganna.``

Þetta segir okkur að samningur SPRON fær staðist og að samruninn muni eiga sér stað, stofnfjáreigendur fái sitt greitt, hinn mikli sjóður til menningar- og líknarmála verði myndaður sem mun veita 300--400 milljónir á ári í styrki. Hann verður ella ekki myndaður. Engin málaferli verða í kjölfarið og ekkert breytist gagnvart sparisjóðunum vegna þess að SPRON ætlar hvort sem er að segja sig úr því samstarfi. Frekari sparisjóðir munu ekki fylgja í kjölfarið því þeir eru ekki búnir að mynda sjálfseignarstofnun. Þetta væri lausn, herra forseti.

Ég vil koma þeim ábendingum til hæstv. viðskrh. að þetta sé lausnin sem mundi leysa allan vanda sem við erum að glíma við, þ.e. fyrirsjáanlegt hrun sparisjóðakerfisins í kjölfarið á breytingu á SPRON vegna þess að aðrir sparisjóðir mundu fylgja í kjölfarið. Við þurfum bara að stöðva hina sparisjóðina.

Herra forseti. Ég á nú enga von á því að hv. þingmenn muni samþykkja þetta því mér sýnist að öll skynsemi sé löngu fokin út í veður og vind.

Sagt hefur verið að viljayfirlýsing stjórnar SPRON, sem hún stóð einhuga á bak við, standist ekki lög. Ef það væri rétt hefði mátt vænta þess að Fjármálaeftirlitið, sem m.a. á að kanna lögmæti gerninga, stöðvaði gerninginn. Það að lögð skuli fram tvö frumvörp á Alþingi til að stöðva þessa samninga, annað meira að segja frá ríkisstjórninni, staðfestir að almennt er óttast að Fjármálaeftirlitið geti ekki stöðvað gerninginn vegna þess að hann er fullkomlega í samræmi við gildandi lög. Lagafrv. sem við erum að fjalla um sannar að samningarnir eru lögmætir. Það verður hins vegar dálítið skrýtið og erfitt fyrir Fjármálaeftirlitið að starfa eftir að Alþingi hefur tekið að sér að leysa úr vanda sem það hefði með réttu átt að úrskurða um. Það er mjög merkileg staða, herra forseti, þegar Alþingi grípur fram fyrir hendur eftirlitsstofnunar sem það hefur búið til. Það gerir frekar lítið úr henni.

Herra forseti. Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum uppruna sparisjóða. Meginhluta síðustu aldar var mikill skortur á lánsfé hér á landi. Til að ná í lánsfé voru stofnaðir sparisjóðir og seinna lífeyrissjóðir. Markmið þessara stofnana var fyrst og fremst að ná í lánsfé fyrir ákveðnar stéttir eða landsvæði eða ákveðna hópa, iðnaðarmenn og verslunarmenn. Þetta endurspeglaðist í nöfnum þessara sjóða, samanber Verzlunarsparisjóðurinn, Sparisjóður alþýðu, Samvinnusparisjóðurinn o.s.frv. Stofnendurnir, sem urðu að vera eignamenn, lögðu yfirleitt fram ábyrgðir til að tryggja innlánin en sátu þá fyrir um verkefnin sem lánveitingarnar fjármögnuðu, t.d. íbúðabyggingar. Ég vil nefna að SPRON var stofnað til að tryggja iðnaðarmönnum í Reykjavík verkefni eða lánveitingar til íbúðakaupa eða íbúðabygginga og þannig var öll Norðurmýrin fjármögnuð, með lánveitingum frá SPRON.

Á árunum um 1960--1970 var þremur sparisjóðum breytt í hlutafélög með lögum frá Alþingi. Þetta er mjög merkilegt. Verzlunarsparisjóðnum, Samvinnusparisjóðnum og Sparisjóði alþýðu var breytt í hlutafélög, Verzlunarbankann hf., Samvinnubankann hf. og Alþýðubankann hf. Í öllum tilfellum eignuðust stofnfjáreigendur allan sparisjóðinn sinn. Sumir hafa sagt að þannig hafi Alþingi gefið stofnfjáreigendum merki um að mega vænta þess að eiga sparisjóðinn sinn þrátt fyrir annan skilning í ákvæðum laga. Síðastliðið haust féll dómur í Hæstarétti, öryrkjadómurinn, sem sagði eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar tryggja rétt manna til bóta sem byggðist á eldri lögum og að þann rétt mætti ekki skerða aftur í tímann. Fyrrnefndir aðilar telja að gildandi lög um sparisjóði skerði eignarrétt þeirra því að nú skuli mynduð sjálfseignarstofnun sem taki yfir rjómann af eign sem aðrir fengu óskerta áður. Þetta sé í andstöðu við stjórnarskrána með sama hætti.

Mikil breyting hefur orðið á fjármagnsmarkaði undanfarið. Samkeppni hefur vaxið hröðum skrefum og með henni koma auknar kröfur um tölvuvæðingu og upplýsingakerfi, sterka markaðssetningu og nýverið hefur brotist út samkeppni um lánskjör til einstaklinga. Allt þetta gerir kröfu til stórra eininga með gott lánshæfismat. Sparisjóðirnir hafa unnið nokkuð saman en óeining hefur verið ríkjandi og hrepparígur og einnig hafa verið mjög mismunandi skoðanir á því hver þróunin er og hvort bregðast þurfi við. Þegar sparisjóðirnir seldu frá sér yfirráð yfir Kaupþingi hf., fyrir tveimur til þremur árum, má segja að þeir hafi misst af tækifæri til að snúa bökum saman með sterkan bakhjarl. Stóraukið framboð á lánsfé hefur líka snúið við upprunalegu hlutverki sparisjóðanna og tilgangi þeirra fyrir stofnfjáreigendur, sem var upprunalega að ná í lánsfé. Þetta kunna að vera skýringarnar á breyttri afstöðu stofnfjáreigenda til sparisjóða sinna. Nú þegar allt syndir í peningum, herra forseti, er ekki lengur þörf og þá minnkar stuðningur stofnfjáreigenda við sparisjóðinn sinn. Ljóst er að lagabreytingar af þeim toga sem hér um ræðir stöðva ekki þessa þróun og kunna að verða mjög skaðlegar fyrir sparisjóðina.

Herra forseti. Fram kom á fundum nefndarinnar að sparisjóðirnir hafa hagnast um 11 milljarða kr. á sölu eða uppfærslu á eign sinni í Kaupþingi og Scandinavian Holding. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að eigið fé þeirra er í heild aðeins 20 milljarðar kr., rúmlega helmingurinn kemur frá Kaupþingi. Þetta segir jafnframt að allar rómantískar hugmyndir manna um sparisjóðinn í heiðardalnum og göfugt samfélagslegt fé hans eru úr lausu lofti gripnar. Margir mundu jafnvel kalla þetta braskfé.

Því hefur verið haldið á lofti að stofnfé sé mjög öruggt fé, nánast gulltryggt, og gefi mjög góðan arð. Þetta á að sjálfsögðu við á meðan sparisjóður græðir. Hins vegar eru allt of mörg dæmi þess að illa hafi farið fyrir sparisjóði og er hægt að nefna nýleg dæmi um fréttir af sparisjóðunum á Siglufirði, í Ólafsfirði og á Hornafirði. Þessum sparisjóðum hefur verið bjargað fyrir horn á þann hátt að aðrir sparisjóðir hafa gerst stofnfjáreigendur með umtalsverðan hlut, þ.e. sparisjóðir eru oft stofnfjáreigendur í öðrum sparisjóði. Það er svo spurning hversu lengi slík samhjálp getur gengið því að hún tekur í eigið fé þess sparisjóðs sem bjargar.

Þar sem allur hagnaður sparisjóðs umfram eðlilega ávöxtun stofnfjár fer til að byggja upp sjálfseignarstofnun sem stofnfjáreigandinn á ekki er eðlilegt að ályktað verði í hina áttina. Hvað með sparisjóð sem lendir í vandræðum og verður jafnvel gjaldþrota? Er ekki eðlilegt að stofnfjáreigandinn eigi kröfu til samfélagsins um ávöxtun á fé sitt fyrst samfélagið hirðir arðinn af stofnfé hans? Er ekki eðlilegt að stofnfé sé ríkistryggt? Hér er spurningu varpað fram með þessum rökum. Þetta kann að verða virkilegt mál innan skamms vegna þess að frv. kemur í veg fyrir að sparisjóðirnir geti bjargað sér.

Allur sá vandræðagangur sem frumvarpinu er ætlað að taka á stafar af því að við hlutafélagsvæðingu sparisjóðs er myndaður risasjóður sem gefur þeim sem honum stýra mikil völd yfir miklum fjármunum sem viðkomandi á ekki og enginn á. Talað hefur verið um að hagsmunaárekstur myndist við það að stofnfjáreigendur selja bæði bréf sjálfseignarstofnunarinnar og sjálfs sín. Þessum hagsmunum er ekki kippt í burtu. Þeir eru bara fluttir til fólks sem ekkert á í viðkomandi sparisjóði. Það þarf ekki einu sinni að taka tillit til annarra stofnfjáreigenda, sem flestir eiga tiltölulega lítilla hagsmuna að gæta eins og í SPRON. Það er alveg með ólíkindum að menn treysti einhverjum fulltrúum ráðherra betur en þeim stofnfjáreigendum, sómafólki, sem hefur byggt upp Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis í áratugi. Það eru miklu meiri hagsmunir sem mæða á þessum örfáu aðilum, fimm manns, sem tilnefndir eru af ráðuneytinu og sveitarfélögum og alveg galopið hvað þeir geta gert við peningana, geta keypt fyrir þá hlutabréf o.s.frv. Allt í einu eru örfáir einstaklingar komnir í þá stöðu að ráðskast með milljarða án þess að eiga þá. Hvað hefur áhrif á þá ákvörðun þessara aðila að kaupa hlutabréf í A hf. fyrir 100 millj. kr. í staðinn fyrir í B hf.? Alltaf er hægt að rökstyðja ákvörðunina. En kannski fylgir stjórnarsæti í A hf. með í kaupunum með stjórnarlaunum og völdum. Svo þarf að ráða forstjóra eða deildarstjóra hjá A hf. Það getur nú verið gaman, herra forseti, sérstaklega ef bróður minn vantar vinnu. Möguleikar á spillingu vaxa mjög. Nú þarf að undirstrika að möguleiki á spillingu er ekki það sama og spilling en þetta kallar á öflugt eftirlitskerfi, og það vantar.

[21:30]

Hagsmunirnir minnka ekki við þessa breytingu, herra forseti, þeir aukast. Vandinn er sá að stjórn sem opinberir aðilar velja á ekki féð og tekur því ekki áhættu með röngum ráðstöfunum frekar en stofnfjáreigendur. En hún mætir ekki árlega hópi fyrrverandi stofnfjáreigenda sem hugsanlega spyrja eins eða annars. Hún verður á vissan hátt ábyrgðarlaus. Þetta er sú hætta sem ávallt fylgir fé sem enginn á því að þar vantar hina hörðu hönd eigandans sem tapar ef mistök eru gerð.

Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að opinberir framkvæmdaraðilar, ráðherrar og sveitarstjórnir, tilnefni stjórn þeirrar sjálfseignarstofnunar sem myndast við hlutafélagsvæðingu sparisjóðs í stað stofnfjáreigenda. Þetta er algert brotthvarf frá þeirri stefnu núverandi ríkisstjórnar að minnka völd opinberra aðila í atvinnulífinu og kemur illa heim og saman við einkavæðingu ríkisbankanna. Þetta er alveg öfug þróun.

En, herra forseti, það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því vegna þess að það verður engin skynsemi fyrir stofnfjáreigendur að breyta sparisjóði í hlutafélag eftir þessa breytingu á lögunum. Eins og áður var bent á mun sjálfeignarstofnunin SPRON ses. fara með 80% atkvæða í SPRON hf. Með því afli getur hún breytt samþykktum og ráðið allri stjórninni en stofnfjáreigendur fá bréf í hendurnar sem eru nánast verðlaus. Það yrði óðs manns æði fyrir stofnfjáreigendur að afhenda yfirráðin yfir sparisjóðnum sínum einhverju fólki sem opinberir aðilar hafa valið, fólki sem hefur engin tengsl við sparisjóðinn, og fær auk þess ekki nema lítið brot af arðinum og á óseljanleg bréf. Fyrir breytinguna ráða þeir öllu, fá allan arð sem greiddur er út og geta hvenær sem er innleyst stofnfé sitt. Þeim dettur ekki í hug að breyta sparisjóðnum sínum í hlutafélag. Þannig að allur kafli laganna, herra forseti, er orðinn tómt mengi.

En þetta leiðir líka til þess að sparisjóðir geta ekki brugðist við tækifærum, eins og gerðist hjá Sparisjóði Hólahrepps sem fékk mikið verkefni og þurfti mikið aukið stofnfé og fékk, það hefur reyndar verið farið dálítið illa með þessa fjárfestingu en það er önnur saga. Hann gerir það ekki aftur. Hann fær ekki svona fé aftur, það er alveg á hreinu, og aðrir sparisjóðir ekki heldur. En ef þeir lenda í vandræðum geta þeir heldur ekki brugðist við vegna þess að 5% hámark atkvæðavægis, --- mikil andúð á stofnfjáreigendum sem komið hefur fram undanfarið hjá fjölda þingmanna, herra forseti, menn hafa talað mjög niður til stofnfjáreigenda í mjög neikvæðum tón, --- og auknar kvaðir á stofnfé munu leiða til þess að ekki verður mikill vilji til að fjárfesta í stofnfé. Sá möguleiki sem fólk sá fyrir við hlutafélagsvæðingu SPRON er ekki lengur til staðar. Þetta þýðir mikla og aukna hættu fyrir sparisjóðakerfið. Viðbúið er að innan nokkurra ára muni aftur koma fram nýjar breytingar á lögum þessum og þá til þess að auka veg stofnfjáreigenda, ég spái því, herra forseti, til þess að bjarga kerfinu enn einu sinni.

Alla síðustu öld hefur hrannast upp fé sem enginn á. Sem dæmi má nefna Brunabótafélagið, KEA, Mjólkurbú Flóamanna, Mjólkursamsöluna, Bændahöllina (Hótel Sögu) og sparisjóðina. Það er umhugsunarvert að þetta fé hefur að mestu verið myndað með framlögum bænda, (JBjarn: Bændur hafa byggt upp landið) sem búa margir við afar slæm kjör á meðan sjálfseignarstofnanirnar þeirra vaða í peningum, marmara og palísander. Bændur sem stunduðu búskap um miðja síðustu öld greiddu fyrir til dæmis og reistu Bændahöllina með framlögum, herra forseti. Þeir búa núna, komnir á gamals aldur, sumir við mjög lök kjör, lélegan lífeyrissjóð og lágar bætur.

Mig langar til að geta þess að eitt sinn hringdi í mig bóndi, ég er því miður búinn að gleyma nafninu, ég skrifaði það á miða og týndi miðanum. En þessi frægi bóndi sem hringdi í mig sagðist geta lifað á 90 þús. kr. vegna þess að hann þyrfti þess og hann færi svo sem létt með það. Hann átti ekki bíl og hann sagðist ekki kaupa pitsu, það var ekki mikið atriði hjá honum. Þessi bóndi sagðist á árabilinu frá 1950--1960 hafa greitt peninga til Bændahallarinnar og nú langaði hann mikið til að nálgast þessar milljónir sem hann ætti þarna svo hann gæti farið að lifa fyrir eitthvað meira en 90 þús. kr. á mánuði. Þetta er dagsatt. Svona er þetta. Maðurinn sem byggði upp Bændahöllina á sínum tíma verður að lifa á 90 þús. kr. á mánuði. Á sama tíma er eitthvert fólk að reka Bændahöllina, eflaust með góð laun og góð lífeyrisréttindi, og hann fær ekki krónu. Allt er þetta gert í þágu góðs málefnis, göfugs fjár, herra forseti.

Öllu þessu fé stýrir eitthvert fólk. En það á ekkert í þessum sjóðum og hefur því enga hagsmuni af því að fénu sé vel ráðstafað. Það kann hins vegar að hafa óbeina hagsmuni af völdunum sem slíku fé fylgja. Þess vegna er í sjálfu sér ánægjulegt að ekki verði um frekari hlutafélagsvæðingar sparisjóða að ræða. Ég greiddi nefnilega á sínum tíma atkvæði gegn þessu frumvarpi, árið 2001. Ég er því ánægður með það að búið er að eyðileggja hlutafjármöguleikann og uppbyggingu þessara miklu sjóða sem enginn á. Hins vegar hlaut ég að vinna í samræmi við þau lög sem Alþingi hafði samþykkt þó að það hefði myndun slíks risasjóðs í för með sér sem til stóð að skapa með kaupum KB-banka á SPRON, 6.000 milljónir, en nú verður það ekki, herra forseti. Ekki verður um að ræða 400--500 milljónir í styrki til menningar- og líknarmála í Reykjavík og nágrenni. Þökk sé meiri hluta Alþingis, eða öllu Alþingi nema mér einum, sýnist mér. Reyndar tókst mér að draga úr hættunni af völdunum í þessum sjóði með því að minnka hlutabréf í KB-banka úr 6 milljörðum eins og til stóð --- 6.000 milljónum, herra forseti, það ræður einu stjórnarsæti í Kaupþingi -- Búnaðarbanka. Þetta var fjórði stærsti hluthafinn í því stóra alþjóðlega fyrirtæki og hefði haft óskapleg völd ef komið hefði upp valdabarátta milli Íslendinga og Svía. Og þá eru laxveiðileyfin orðin algjörir smáaurar í því samhengi. En þetta verður væntanlega ekki. Mér tókst sem sagt að lækka þennan hlut niður í 2 milljarða til þess að draga úr biti valdanna og að restin yrði greidd með peningum og skráðum skuldabréfum. Og það var ekki heimilt að kaupa frekari hlutabréf. Þannig reyndi ég að minnka hættuna af þessum sjóði sem ég geri mér grein fyrir en aðrir virðast ekki gera sér grein fyrir. Svo voru settar inn reglur um styrkveitingar sem áttu að verða umtalsverðar en verða sennilega ekki, reglur sem tryggja eiga gæðaeftirlit með þeim verkefnum sem verða styrkt og er það nýmæli. Ég man ekki til þess að ríkisvaldið sé með gæðaeftirlit á þeim verkefnum sem það styrkir í menningar- og líknarmálum. Þannig var reynt að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem slík uppsöfnun fjár án eiganda getur haft.

Æskilegt væri að hv. þingheimur sneri sér að því að finna eigendur að slíku fé, t.d. bóndann góða sem lifir á 90 þús. kr. á mánuði, segir það svo sem gott en hann vildi gjarnan hafa það betra, í stað þess að skapa sífellt nýja slíka sjóði. Eigandinn fer ætíð betur með fé en sá sem ekki á það fé sem hann stýrir. Eigandinn finnur a.m.k. illilega fyrir því ef hann gerir mistök því að þá tapar hann peningunum sínum sem hinn gerir ekki. Hjá þeim seinni breytist oftast ekki nokkur skapaður hlutur, hann heldur sínum launum, hann heldur sínum lífeyrisrétti þó að hann geri mistök.