Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 21:43:28 (3912)

2004-02-05 21:43:28# 130. lþ. 58.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 130. lþ.

[21:43]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég sagði í viðtali, öðru viðtali, var það að SPRON standi frammi fyrir því að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra laga sem verði í gildi eftir að frv. hefur orðið að lögum. (PHB: Einmitt.) Ég geri mér grein fyrir því að þetta frv. hefur ákveðnar breytingar í för með sér, annars hefði það ekki verið lagt fram.

Þegar hv. þm. spyr hvort það hafi eitthvað með það að gera að frv. er lagt fram að uppi voru áform, og eru kannski enn, um viðskipti á milli SPRON og KB-banka, þá sagði ég í gær í lok Kastljóss að það væri ekkert launungarmál að það hefði með það að gera að uppi hafi verið áform um viðskipti á milli SPRON og KB-banka að þetta frv. væri lagt fram. Það væri hins vegar ekki lagt fram til þess beint að koma í veg fyrir þau viðskipti. Það er hins vegar þannig, eins og ég sagði áðan, að SPRON eins og önnur fyrirtæki þurfa að taka mið af lögum og lagaumhverfið breytist með þessu frv. verði það að lögum og það er aðalatriðið.