Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 21:58:27 (3916)

2004-02-05 21:58:27# 130. lþ. 58.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, GHj
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 130. lþ.

[21:58]

Guðjón Hjörleifsson:

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að frv. til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nái fram að ganga og ég styð það heils hugar.

Hér er um að ræða breytingar á lagaákvæðum um sparisjóði. Sögu sparisjóðanna má rekja aftur til miðrar 19. aldar og það má segja að þeir hafi verið stofnaðir í hinum eina sanna ungmennafélagsanda. Markmið þeirra framsæknu frumkvöðla með stofnun sparisjóðanna var fyrst og fremst að stuðla að almannahag, efla heimabyggðir og atvinnulíf.

Í dag þjóna sparisjóðirnir 60--70 þúsund viðskiptavinum og er fjöldi þeirra 24. Fjöldi viðskiptavina er um 25% af viðskiptavinum á einstaklingsmarkaði. Fjöldi starfsmanna sparisjóðanna og tengdra félaga er um 900 og ljóst er að ef sparisjóðirnir fara út af fjármálamarkaðnum munu margir starfsmenn missa vinnuna og það er ekkert óeðlilegt þegar samþjöppun verður á þeim markaði. Þetta gerist í öllum atvinnugreinum þegar slík samþjöppun á sér stað.

Ljóst er að frv. er lagt fram til að eyða mikilli óvissu sem vissulega er um framtíð sparisjóðanna. Með fyrirhugaðri sölu á SPRON til Kaupþings -- Búnaðarbanka er ljóst að sparisjóðakerfið er í hættu. Það er í mikilli hættu. Ef annar stór sparisjóður yrði seldur með sama hætti er sparisjóðakerfið hrunið að mínu mati.

Sparisjóðirnir hafa haft Sparisjóðabankann sem sinn Seðlabanka ef svo má að orði komast. Þess vegna hafa minni sparisjóðir getað þjónað töluvert betur í sinni heimabyggð með Sparisjóðabankann sem bakland. Sparisjóðirnir þjóna sennilega best hinum dreifðu byggðum landsins og þjóna þannig að hluta öðrum markaði en aðrar bankastofnanir.

[22:00]

Virðulegi forseti. Ég tel frumvarp hæstv. viðskrh. skynsamlegt. Samsetning á kosningu aðila í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar sem myndast ef sparisjóði er breytt í hlutafélag er með þeim hætti að tveir aðilar eru tilnefndir af sveitarfélagi þar sem sparisjóður á heimilisfesti. Tveir fulltrúar munu tilnefndir af ráðherra og einn fulltrúi tilnefndur af samtökum sparisjóða. Þessir aðilar þurfa að axla þá ábyrgð sem þeir eru kjörnir til, verði viðkomandi sparisjóður gerður að hlutafélagi. Það er einnig eðlilegt að ekki sé talin þörf á að fulltrúaráð starfi í sjálfseignarstofnunum þegar skilið er á milli stofnfjáreigenda og stjórnar sjálfseignarstofnunar. Stofnfjáreigendur eru ekkert annað en trúnaðarmenn heima í héraði. Það er óeðlilegt að þeir hagnist mikið á því að viðkomandi sparisjóði sé breytt í hlutafélag og hann seldur. Þeir eiga að verja starfsemi sparisjóðs síns, því sparisjóðurinn er einmitt hjarta margra byggðarlaga, sérstaklega á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Það er óeðlilegt að slíkur gjörningur nái fram að ganga. Að mínu mati eru stofnfjáreigendur að selja það sem þeir ekki eiga. Það eru fyrst og fremst viðskiptavinir sparisjóðanna sem hafa byggt þá upp. Ættu þeir ekki frekar að njóta arðsins, þó svo það dæmi sé ekki hægt að reikna? Nær væri að sala færi fram og hagnaður af sölunni, að frádregnu uppreiknuðu verði á stofnfé til stofnfjáraðila, mundi renna til samfélagsins með einhverjum hætti.

Virðulegi forseti. Ég minni einnig á þá miklu óvissu fyrir starfsmenn og fjölmörg byggðarlög sem treysta á sparisjóðina. Því er fagnaðarefni að þetta frv. skuli lagt fram og mikilvægt að það nái fram að ganga. Það er líka alltaf spurning hve mikil samþjöppun á fjármálamarkaði á að vera. Þetta er hættuleg þróun og að mínu mati getur orðið hætta á því að sparisjóðir í dreifðum byggðum verði keyptir upp og breyting á þjónustu yrði ekki í takt við kröfur íbúanna.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að víða í hinum dreifðu byggðum eru sparisjóðir einu stofnanirnar með opna afgreiðslu allan daginn. Víða hafa þeir tekið að sér víðtækt þjónustuhlutverk, t.d. þjónustu við stóru happdrættin, umboð fyrir tryggingafélög, atvinnuleysisskráningu og önnur verk fyrir sveitarstjórnir. Þeim verkefnum hefur fjölgað vegna stækkunar sveitarfélaga, bæði vegna sameininga og annars. Þá er ónefnt hlutverk sparisjóðanna við póstþjónustu sem rutt hefur sér til rúms víða um land og má í því sambandi benda á Vestfirði og fleiri staði.

Virðulegi forseti. Ég starfaði sem gjaldkeri og síðan skrifstofustjóri í Sparisjóði Vestmannaeyja á árunum 1975--1990. Ég er þar sjálfur stofnfjáreigandi. Stofnfé í þeim sparisjóði er samtals 1,5 millj. kr. og dreifist jafnt á 70 aðila. Ég hef ekki litið á þetta sem stóran þátt í efnahag mínum. Ég tel mig því þekkja vel til sparisjóðaumhverfisins og mikilvægis þess í samfélagi okkar. Styrkur sjóðanna er sparisjóðafjölskyldan sem er mikilvæg. Eins og áður hefur komið fram var markmið frumkvöðlanna að stofna sparisjóðina fyrst og fremst til að bæta almannahag, efla heimabyggðir og atvinnulíf.