Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:09:48 (3933)

2004-02-09 15:09:48# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er áhugavert umræðuefni sem hv. þm. Kristján L. Möller hefur vakið máls á þó ýmislegt í lýsingum hans sé öðruvísi en ég kannast við. Það er rétt hjá honum að loðnustofninn er afskaplega mikilvægur, bæði sem veiðistofn og ekki síst sem undirstaða fæðu þorsksins. Hins vegar þurfum við að hafa í huga að við höfum upplifað það að með um það bil 10 ára millibili virðist stofninn fara í lægð án þess að það sé nokkuð tengt við veiðarnar. Þess vegna eru menn hugsi og íhugulir yfir því sem er að gerast á miðunum í dag. Auk þess hefur orðið vart við umhverfisbreytingar á undanförnum árum.

Ég kannast ekki við að fyrir liggi nýjar tillögur um prógramm vegna stofnmælinga á loðnunni. Ég kannast hins vegar við að það hafi verið uppi hugmyndir um rannsóknir á öðrum tímum og öðrum stöðum en hafa tengst stofnmælingunum. Stofnmælingarnar hafa í megindráttum verið þannig fram til ársins 2002 að loðnan hefur verið mæld að haustinu til, bæði ungloðnan sem á að vera uppistaða næstu vertíðar og eins sú loðna sem á að vera uppistaða þeirrar vertíðar sem fylgir veturinn eftir. Á þessu hefur hins vegar orðið breyting. Það hefur bæði verið erfiðara að mæla fullorðnu loðnuna sem á að vera uppistaða vetrarvertíðarinnar og eins hafa fengist rýrari og jafnvel engar upplýsingar um ungloðnuna sem á að vera uppistaða næstu vertíðar þar á eftir. Þess vegna hefur þurft að fara í vetrarleiðangra. Þá er einungis hægt að mæla loðnuna sem er uppistaðan í þeirri vertíð sem þá stendur yfir. Mælingarnar stóðu allt fram í mars á sl. ári þar til endanleg mæling fékkst. Þá voru hins vegar ekki til upplýsingar um ungloðnuna sem átti að vera uppistaða vertíðarinnar sem átti að hefjast um sumarið. Því var farið í frekari leiðangra í apríl til þess að finna hana, og gekk það reyndar erfiðlega, en mæling fékkst þó þannig að hægt var að gefa upp upphafskvóta í upphafi vertíðarinnar. Það er í þessu ljósi sem við þurfum að skoða stöðuna. Það hefur verið miklu erfiðara að ná þeim mælingum sem við höfum þurft til að gefa út kvótana. Í janúar var það Hafrannsóknastofnunin sem stóð fyrir þeim leiðangri sem hófst í byrjun janúar. Niðurstöðurnar úr þeim leiðangri voru þær að ekki mældust nema um 130 þús. tonn sem var náttúrlega engan veginn forsvaranleg stærð til þess að veiðar gætu haldið áfram og því var ekki um annað að ræða en að hætta veiðunum meðan frekari rannsóknir færu fram. Þá voru hins vegar strax lögð drög að frekara samstarfi við útgerðirnar og að miðin væru vöktuð þar til loðnan fyndist og Árni Friðriksson gæti farið aftur út að mæla. Þetta tók sem betur fer skamman tíma og loðnuveiðibanninu var þar af leiðandi rift eftir örfáa daga.

Þó að mælingin hafi verið betri var ljóst að ekki náðist fullkomlega utan um það sem var á miðunum og því, eftir að hafa farið yfir málin með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, var ákveðið að fara í frekari leiðangur sem væntanlega hefst í dag. Þessi ákvörðun var tekin í síðustu viku og hefur verið í fréttum nú um helgina eftir því sem mér skilst.

Á undanförnum árum hefur mjög mismunandi mikill tími hefur farið í loðnumælingarnar. Hafrannsóknastofnun og stjórnvöld hafa reynt að laga sig að þeim tíma sem þarf og það verður að sjálfsögðu líka gert á þessari vertíð eins og áður. Sem dæmi er rétt að nefna að árið 2002 þurfti 33 úthaldsdaga til að mæla loðnustofninn, en á síðasta ári, árinu 2003, fóru í það 77 dagar. Við sjáum því að þetta er ekkert sem hlaupið er að miðað við þessar aðstæður. Því er algerlega ástæðulaust að vera með einhver stór orð um að vísindamenn Hafrannsóknastofnunar sinni ekki sínu verki, standi slaklega að verki eða að ekki séu nægir fjármunir til þess að sinna svo mikilvægum rannsóknum sem hér er um að ræða. Það er nægjanlegur sveigjanleiki í kerfinu til að svara þeim kröfum sem þarna eru uppi.

Svo er annað mál með heildarfjárveitingar Hafrannsóknastofnunarinnar. Þær eru nú um stundir til rannsókna nokkuð svipaðar og á síðustu árum, heldur meiri en á undanförnum árum, og það er það sem er skynsamlegt, herra forseti, þegar rannsóknir eru auknar, að það sé gert smám saman en ekki í stórum stökkum.