Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:15:11 (3934)

2004-02-09 15:15:11# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á að fagna því að ákveðið hefur verið að hafrannsóknarskipin fari út á nýjan leik eða að farið verið í nýjan leiðangur. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt, og ekki bara það að farið verði núna til að mæla heldur held ég að ástand loðnugangnanna núna að undanförnu og allar aðstæður kalli á að skipið verði við mælingar næstu þrjár, fjórar vikur og jafnvel alveg fram undir lok vertíðar, einfaldlega vegna þess að miðað við upplýsingar af miðunum þá er hegðan loðnunnar þannig. Nýjar og nýjar göngur eru að koma inn í veiðina á sama tíma og fyrri göngur hverfa eða fara á botninn eins og oft vill verða rétt áður en loðnan gengur upp á grunnið. Eigi að nást einhver heildarmæling þannig að unnt sé á endanum að gefa út sæmilega eða sem réttasta niðurstöðutölu fyrir kvótann verður skipið að vera við mælingar alveg þangað til að ætla má að allur veiðistofn þessa árs sé orðinn mælanlegur eða kominn upp á grunnið.

Það er nú einu sinni þannig að loðnan er dyntóttur fiskur og erfitt viðfangsefni, bæði fyrir fiskifræðinga og iðulega fyrir veiðimenn eins og við þekkjum. Þess vegna er ekkert að því að viðurkenna að stundum eru aðstæður þannig að menn verða að kosta dálitlu til til að fá sem besta niðurstöðu og öruggasta. Auðvitað vill enginn valda því að gengið verði óhóflega nærri hrygningarstofninum. Að sama skapi er eftir miklu að slægjast ef óhætt reynist að veiða meira en áætlað hefur verið fram að þessu og ekki síst ef vel horfir með veiðar á hrognafylltri loðnu til frystingar á Japansmarkað og frystingar á hrognum.

Útlitið er því að mörgu leyti álitlegt að mati þeirra skipstjóra sem maður hefur samband við. Fyrst og fremst er um það beðið að lagðir verði nægilegir fjármunir og orka í rannsóknir og mælingar alveg þangað til að búið er að fá botn í þau mál eins og hægt verður á þessari vertíð. Ekki veitir nú sjávarútveginum af, virðulegi forseti, eins og afkoman er að þróast þar um þessar mundir, að sæmilega gangi á loðnuvertíðinni.