Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:22:07 (3937)

2004-02-09 15:22:07# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hefur verið stefna hér í mörg ár að skilja eftir 400 þús. tonn af loðnu til hrygningar á hverjum vetri og það þarf nú að vanda sig til þess að það gangi upp. Þess vegna er eðlilegt að menn gæti varúðar þegar ákveðið er hve mikið megi veiða. Afkastageta flotans er gífurlega mikil og ef menn gera vitleysur í lífríkinu í þessu efni þá er ekki víst að þær verði aftur teknar á næstu árum þar á eftir.

Hins vegar er búinn að vera býsna mikill vandræðagangur, ekki bara í mælingum á loðnu heldur líka síld á undanförnum árum, sl. þrjú, fjögur ár. Menn týndu nú síldinni í heil tvö ár og síðan hefur þetta gengið svona með loðnuna síðustu þrjú árin að það hafa verið mikil vandræði að finna út hvað væri mikið af henni.

Við vorum á fundi í sjútvn. í morgun og þar kom fram að helsti sérfræðingur stofnunarinnar í þessum málum telur að fimm ára prógramm þurfi til þess að rétta af þá vitneskju sem stofnunin þarf á að halda til þess að geta gert það sem til er ætlast af henni. Slíkar rannsóknir kosta 70--80 milljónir á ári.

Ég held því að hæstv. ráðherra ætti að spara sjálfur stóru orðin hvað það varðar að þar hafi endilega verið staðið nákvæmlega vel og rétt að málum. Ég held að aðvaranirnar undanfarin ár hafi verið það skýrar að menn verði að taka mark á þeim. Ég segi að það verður frekar að láta loðnuna njóta vafans heldur en útgerðina og lífríkið frekar en hagsmunaaðilana. Þess vegna skil ég vel að menn vilji fara varlega.

En það er líka hægt að gera fullkomlega kröfu um að menn geri það sem vísindamenn telja skynsamlegast í þessu efni við þær rannsóknir sem þurfa að fara fram og það hefur ekki verið gert.