Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:40:07 (3945)

2004-02-09 15:40:07# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé heldur til bóta sem hér er lagt til þó að það hafi kannski ekki beinlínis með það óhapp að gera sem hæstv. ráðherra nefndi í framsögu sinni. Það hefði getað gerst þó að þetta hefði heyrt undir ráðuneytið, held ég, því þar var í raun og veru ekki verið að fara eftir þeim reglum sem eru þó í gildi eða áttu að vera í gildi.

Það er auðvitað mikið umhugsunarefni hvernig þessum eldismálum er komið að þau skuli vera undir tveimur ráðuneytum og kannski er þetta skref í þá áttina að breyta því og vonandi gerist það sem allra fyrst. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra að halda áfram að vera með þessa hluti undir tveimur ráðuneytum. Reyndar eru þessi mál meira og minna mikið umhugsunarefni, hvernig verkefnin skarast út og suður hjá ráðuneytunum og alveg sérstaklega í eldismálunum. Það eru ekki bara ráðuneytin heldur eru aðrir eftirlitsaðilar í þessu líka. Sveitarfélög eiga að hafa eftirlit með eldisstöðvum undir 200 tonnum og umhvrn. á í raun og veru að hafa eftirlit með þessu líka. Iðnrn. á hlut að máli o.s.frv. Allt er þetta ein flækja sem menn hafa ekki lagt í að greiða úr en ég tel að það sé full ástæða til þess að menn fari að taka á þeim málum sem allra fyrst og koma á einfaldara og skilvirkara skipulagi. Það þarf auðvitað að gerast með breytingu á Stjórnarráðinu og breytingu á ráðuneytunum, það þarf að fækka þeim og setja upp ný ráðuneyti í staðinn en færri. Ég ætla ekki að halda ræðu um það núna. Ég vildi aðeins taka til máls og segja að ég tel það út af fyrir sig jákvætt og í einföldunarátt sem hér kemur fram en við fáum tækifæri til að skoða þetta betur í nefndinni og þar verður það gert og þar munu menn auðvitað velta því fyrir sér hvort einhverjar aðrar endurbætur gætu fylgt þessu við meðferð málsins.